Heimilisofbeldið var mitt leyndarmál

Öll þjóðin þekkti Henny Hermanns eftir að hún sigraði keppnina Miss Young International - alheimstáningurinn í Japan aðeins 18 ára gömul árið 1970. Henny var ákaflega lífsglöð, hugrökk, sjálfsörugg og kraftmikil stelpa og unglingur.  Þegar hún var aðeins tuttugu ára var hún búin að fara þrisvar í kringum jörðina í ýmsum erindagjörðum þar á meðal í fegurðarsamkeppnina stóru þar sem hún bar sigur úr býtum. 48 árum síðar kemur saga Henny út á bók. Vertu stillt er titill bókarinnar og það er Margrét Blöndal, fjölmiðlakona og rithöfundur sem skrifar hana. Henny og Margrét tala um bókina við Margréti Marteinsdóttur á Hringbraut í kvöld, um söguna sem fjallar ekki bara um glöðu stelpuna, unglinginn sem fór sínar eigin leiðir, ungu konuna sem opnaði verslun, var flugfreyja, barðist gegn hassreykingum, varð eiginkona og móðir.

Bókin er líka um konuna sem bugaðist eftir áralangt ofbeldissamband. Því á bak við glansmyndina sem dregin var upp af Henny í fjölmiðlum var sorgarsaga sem tengdist heimilisofbeldi sem stóð um árabil. Hún faldi áverka meðal annars með þykku andlitsmeiki og rúllukragapeysum.  ,,Ég lokaði mig af, þetta var mitt leyndarmál\" segir Henny í viðtalinu. Margrét Blöndal segir magnað að skoða blaðamyndir frá þessum tíma vitandi hvað gekk á. Að Henny hafi brosað framan í myndavélar og á sviði þar sem hún sýndi föt eða dansaði en vissi ekki hvað beið hennar þegar hún kom heim.  Henny segist sjálf hafa stigið inn í þá Henny sem allir þekktu þegar hún var á sviðinu. Henny tjáir sig í fyrsta sinn í bókinni um ofbeldið, þöggunina og afleiðingar ofbeldisins sem hún er enn að glíma við.