Heilsuspillandi borgir lögðu grunn að skipulagsmálum

„Nútímaskipulag má segja að byrji fyrir röskum 100 árum. Hjá Englendingum lentu þeir í vandræðum með Búastríðið í Suður Afríku, ungir drengir sem voru kvaddir í herinn í Englandi voru með alls konar pestir; beinkröm og berkla af því að borgirnar voru heilsuspillandi. Það vantaði hrausta hermenn og [Englendingar] gengu í þetta með oddi og egg, að þetta væri ekki hægt að vera með heimsveldi án þess að vera með góða hermenn. Þeir sem gengu í þessi mál í Englandi voru aðallega læknar sem gjörbreyttu þessum málum og settu á laggirnar skipulagsráðgjöf og þeir fara síðan að kenna skipulagsfræði, fyrst við háskólann í Liverpool og síðan við fleiri háskóla,“ segir Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur.

Gestur er gestur Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hann ræðir skipulagsmál og skipulagsfræði.

Í kjölfar þess að England reið á vaðið fylgdu aðrar þjóðir í humátt á eftir. „Aðrar þjóðir eins og Þjóðverjar og Bandaríkjamenn og skandinavísku þjóðirnar tóku þetta upp. Hér á Íslandi var það líka læknir sem var einn aðalhöfundur fyrstu skipulagslaganna, Guðmundur Hannesson. Hann skrifaði merkilega bók um skipulag bæja. Þetta er algjört grundvallaratriði til þess að tryggja að það sem verið er að byggja og það sem verið er að gera er sé gert af einhverri lágmarks skynsemi.“

Þrátt fyrir að nútímaskipulag sé ekki ýkja gamalt hefur það svo til alltaf verið til staðar með einum eða öðrum hætti. „Skipulag á sér náttúrulega langan aðdraganda. T.d. hjá gömlum stórþjóðum eins og Egyptum og Grikkjum og Rómverjum, þá hefðu þær ekki farið af stað með her án þess að skipuleggja ótalmörg atriði sem þurftu að ganga upp,“ segir Gestur einnig.

Nánar er rætt við Gest í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.