„ef útgerðin kvartar þá verður brugðist við því“

Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Miðjunnar fréttavefs og Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins og starfsmaður ríkisstjórnarinnar 2013 til 2017 mæta í Ritstjórana til Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld.

Staða sérfræðilækna var rædd, læknanna sem starfa utan sjúkrahúsanna á eigin stofum og hvað heilbrigðisráðherra hyggst fyrir. Grein fyrrverandi landlæknis og núverandi aðstoðarmanns ráðherra í Fréttablaðinu greinir mjög skýrt frá því hver vandinn hefur verið í oflækningum, bendir Sigurjón á og Sigurður Már gerði athugasemd við það af hverju Landlæknisembættið hafi ekki haft betra eftirlit með útgjöldum til sérfræðilæknanna hafi komið í ljós það þau væru of mikil. Sigurður Már rifjaði upp árið 2016 þegar mikið var gert í að fá íslenska lækna erlendis aftur heim.

Frumvarp um veiðigjöld sem sjávarútvegsráðherra kynnti í dag telur Sigurjón fela einfaldlega í sér lækkun veiðigjalda fyrir alla. Hann telur að miðað við orð sjávarútvegsráðherra á þingi muni gjaldið verða hreinlega bara lækkað og með orðum eins og „afkomutenging“, sé ekki verið að segja hlutina beint út – stóru sjávarútvegsfyrirtækin fái jafn mikið út úr breytingum á gjaldinu og lítil og meðalstór fyrirtæki. „Ef útgerðin kvartar þá verður brugðist við því“, fullyrðir Sigurjón.

Fátækt á Íslandi taldi Sigurður Már aðallega vera vegna húsnæðisvandans og Sigurjón sagði stór fasteignafélög líkt og Heimavelli njóta þess enn – sem hann telur ólöglegt – lánafyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs á sínum tíma.

Um eitt voru Sigurður og Sigurjón sammála um; heilbrigðismálin og kjaramálin verða erfiðust fyrir þingið og ríkisstjórnina að fást við í vetur.