Heiðurstengt ofbeldi er á íslandi

Heiðurstengd átök hjá fjölskyldum af erlendum uppruna eiga sér stað hér á landi. Í þættinum 21 í kvöld ræðir Linda við þrjár konur sem þekkja málefnið og fá slík tilfelli inn á borð til sín. 

Ýktasta birtingamynd heiðurstengdra átaka eru svonefnd heiðursmorð sem af fréttist frá öðrum Norðurlöndum og víðar um heim. Tími er kominn til að bera kennsl á þetta hér á landi segir Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði Reykjavíkurborgar þar sem þetta er íslenskur veruleiki. „Það sem gerist annars staðar kemur líka hingað til lands, bara aðeins seinna“, segir hún. Ráðstefna var haldin í vikunni þar sem tveir norskir sérfræðingar sögðu frá því hvernig bera má kennsl á slíkt ofbeldi og hvernig vinna megi gegn því.

Um er að ræða mannréttindabrot þegar heiður fjölskyldunnar er hærra settur en frelsi einstaklingsins. Edda segir að þarna sé stórfjölskyldan og heiður hennar alls ráðandi og jafnvel þótt hún sé ekki á Íslandi, heldur bara hluti hennar.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir þessi dæmi oftar koma upp nú en kannski af því að starfskonur athvarfsins hafa augun betur opin fyrir þeim. „Þetta tengist þjóðarmenningu en minnst af öllu trú, þetta getur komið upp í öllum mögulegum trúarbrögðum. Þetta tengist þessu feðraveldi, styrk karla og styrk þeirra eldri“, segir Sigþrúður.

Þannig getur fjölskyldan verið uppruninn frá Miðausturlöndum jafnt sem Asíulöndum eða Austur-Evrópu ríkjum.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, félagsráðgjafi og deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals- og Háaleitis, segir dæmi um þetta koma inn á borð til sín: „Við sjáum þetta oft hjá fjölskyldum af erlendum uppruna\", segir Ásta Kristín.  

 

Stikla af þætti kvöldins er hér: