Hef ekki fundið fyrir rýtingunum

Gylfi Arnbjörnsson er gestur Mannamáls í kvöld:

Hef ekki fundið fyrir rýtingunum

Ég hef ekki safnað óvinum í störfum mínum innan Alþýðusambandsins og öðru fremur reynt að rökræða mig í gegnum þau verkefni sem blasa við hverju sinni, en ég get verið þver og það fer stundum mikið fyrir mér, það er engin spurning.

Hér talar fráfarandi formaður Alþýðusambands Íslands, strákurinn úr litlu blokkinni í Keflavík sem sér uppvaxtarár sín í rósrauðum bjarma, enda Hljómar og Trúbrot að spila á skólaböllunum í hans æsku og helstu rokkarar landsins að kenna honum þess á milli í barnaskólanum í bænum. Hann segist ekki hafa fundið fyrir mörgum rýtingum í bakinu á síðustu árum, en þær áherslur í kjaramálum sem kynntar hafi verið af nýjum foringjum innan ASÍ á síðustu mánuðum séu einfaldlega þess eðlis að hann geti ekki sem forseti talað fyrir þeim; þess vegna sé eðlilegt að hann stígi til hliðar og það sé út af fyrir sig ekkert athugavert við það.

Í yfirgripsmiklu viðtali talar hann um verkalýðsbaráttuna fyrr og nú og alla sigrana síðasta mannsaldurinn sem alltof mörgum finnist sjálfsagðir í dag, en hann er líka á persónulegum nótum; nýbúinn að missa móður sína, bróður og besta vin á stuttum tíma - og það sé vissulega erfitt og ósanngjarnt þegar það eigi við um fólk á besta aldrei - og tilviki móður sinnar heitinnar sé það einstakt, af því að maður eigi bara eina mömmu - og finni það svo vel, á kveðjustundinni, að maður sé voðalega mikill mömmustrákur.

Og hann veit ekkert hvað hann ætli að fara að taka sér fyrir hendur þegar hann gengur út af skrifstofum ASÍ, það komi bara í ljós ...

Mannamál byrjar klukkan 20:00 í kvöld.

 

 

 

Nýjast