Harry prins og meghan orðin hjón

Harry Bretaprins og Meghan Markle gengu að eiga hvort annað við fallega og gleðiríka bresk-bandaríska athöfn í kapellu heilags Georgs í Windsor-kastala á Englandi í dag.

Hann dró giftingarhring úr velsku gulli á fingur henni og hún platínuhring á fingur hans. Þau innsigluðu giftinguna með kossi á tröppum kapellunnar að lokinni athöfn.

Umgjörðin var öll hin glæsilegasta. Meðal 600 brúðkaupsgesta voru Ophra Winfrey, George og Amal Clooney, David og Victoria Becham, tennisstjarnan Serena Williams, þáttastjórnandinn James Corden og Sir Elton John.

Auk þess var 1.200 almennum gestum boðið á lóð kastalans, fólki sem hefur starfað að mannúðar- og góðgerðarmálum. Theresa May, forsætisráðherra var ekki viðstödd, enda athöfnin ekki opinber stjórnarathöfn, en John Major fyrrverandi forsætisráðherra var. Karl Bretaprins leiddi Meghan Markle að altarinu, en faðir hennar komst ekki frá Bandaríkjunum vegna veikinda. Harry mætti með störnur í augunum með svaramanni sínum, sem var William prins, bróðir hans. Tíu börn voru brúðarmeyjar og -sveinar.

Sjálf athöfnin hófst klukkan 12 á hádegi að staðartíma (11 ísl. tíma) og stóð í rúma klukkustund. Það var erkibiskupinn af Kantaraborg, Justin Welby, sem gaf brúðhjónin saman, en meðal tónlistaratriða var kórsöngur á lagi Ben E. Kings, Stand By Me.

Brúðarkjóll Meghan var hannaður af breska hönnuðinum Clare Waight Keller, sem í fyrra varð fyrsta konan til að verða yfirhönnuður franska tískuhússins Givenchy, að því er Kensgington höll skýrði frá á Twitter.

Veðrið á Englandi í dag er eins og best verður á kosið, um 20 stiga hiti og glaðasólskin.

 

Ms. Meghan Markle’s wedding dress has been designed by the
acclaimed British designer, Clare Waight Keller. Ms. Waight Keller last year
became the first female Artistic Director at the historic French fashion house Givenchy.

— Kensington Palace (@KensingtonRoyal) May 19, 2018