Haraldur útskýri orð sín um spillingu: „Ég skal ekki segja frá nema að ég fái að halda minni stöðu“

Haraldur útskýri orð sín um spillingu: „Ég skal ekki segja frá nema að ég fái að halda minni stöðu“

„Það er auðvitað eðlilegt að ríkislögreglustjóri tilkynni það til þar til bærra yfirvalda viti hann af spillingu innan lögregluembættisins.“

Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem kjörin verður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á morgun, í samtali við RÚV. Átök sem eiga sér stað innan lögreglunnar hafa farið stig vaxandi og leikur nú allt á reiði skjálfi eftir viðtal Morgunblaðsins við Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra. Síðustu mánuði hefur Haraldur verið harðlega gagnrýndum af lögreglumönnum og því verið haldið fram að Haraldur gangi fram með ógnar og óttastjórnun. Haraldur hefur sjálfur sagt að gagnrýni á hans störf sé sett fram til að reyna bola honum úr embætti. Þeir sem standi á bak við róginn séu óhæfir starfsmenn sem reyni að valda ólgu og óróa. Þá sagði Haraldur að ef til starfsloka kæmi myndi það kalla á ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna sem á sér stað á bak við tjöldin. Þá gaf hann í skyn að spilling væri innan lögreglunnar.

Þórhildur Sunna sagði aðspurð hvort að hún teldi að þörf væri á að kalla hann fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að útskýra ummæli sín væri vel skoðandi.

 „Það þarf að skoða um hvað hann er að tala þegar hann segir að spilling þrífist innan lögreglunnar og hann ætli ekki að segja frá því nema að hann verði fyrir einhvers konar afleiðingum. Mér finnst það lykta af einhvers konar samtryggingarfíling að „ég skal ekki segja frá nema að ég fái að halda minni stöðu““.

Þá hefur dómsmálaráðherra sagt að til greina komi að bjóða Haraldi starfslokasamning. Haraldur hefur sjálfur sagt að hann ætli að ljúka þeim þremur árum sem hann á eftir í starfi. Þórhildur Sunna kveðst efins um að það sé rétta leiðin til að höggva á hnútinn þar sem vandinn innan lögreglunnar virðist djúpstæður.

 „Mér finnst líka að hann eigi ekki að þurfa starfslokasamning til þess að hann segi okkur frá því sem hann telur vera alvarlega misbresti innan lögreglunnar.“

Nýjast