Hanna katrín ósátt: „ég hef engan svikið - étt‘ann sjálfur sturla“

„Mér skilst að fram undan sé einhver fundur hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem vænta má uppgjörs af einhverju tagi ef marka má umfjöllun fjölmiðla. Undanfarið hefur gengið maður undir manns hönd af innvígðum og innmúruðum í flokknum með greinarskrif í málgagnið til að sverja fyrir slíkt innanhússuppgjör.“

Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar á Facebook-síðu sinni. Þar gagnrýnir hún Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins harðlega. Hún kveðst standa á sama um það uppgjör sem eigi sér stað innan þingflokks Sjálfstæðismanna vegna deilna þeirra um innleiðingu þriðja orkupakkans en gagnrýnir að Sjálfstæðismenn og stuðningsmenn þeirra dragi Viðreisn inn í þær umræður og yfirlýsingar í garð hennar flokks séu fremur súrar. Hanna Katrín segir að steininn hafi tekið úr þegar Sturla birti grein í Morgunblaðinu um liða helgi en greinin fjallaði um orkupakka þrjú. Lauk Sturla greininni á þessum orðum:

„Höfnum ruglinu í Viðreisnarliðinu sem sveik okkur sjálfstæðismenn. Þau reyna sjáanlega að halda þeirri iðju áfram á leið sinni til Brussel.“

Þessu svarar Hanna Katrín: „Ég er einn stofnenda Viðreisnar og þingmaður flokksins frá upphafi. Ég hef engan svikið á þeirri góðu vegferð, allra síst sjálfstæðismenn. Étt‘ann sjálfur Sturla Böðvarsson.“

Sturla Böðvarsson ákvað svo að taka þátt í umræðunum og tjá sig um innlegg Hönnu Katrínar. Segir Sturla að hann sé ánægður með viðbrögð Viðreisnarmanna við pistlinum. Sturla segir:

„Viðbrögðin sýna að þar svíður undan svipuhögginu og samviskan er slæm. M.a. hjá fyrrverandi aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra sem ég á sínum tíma ræddi við sem einn af trúnaðarmönnum sem vann fyrir leiðtoga flokksins en hljóp síðan á fjöll. Svo það fari ekki á milli mála þá var ég einkum og sér í lagi að beina spjótum mínum að Þorgerði og Þorsteini sem ég studdi og varði í Sjálfstæðisflokknum. Og ég er ekki einn um að vera sár vegna framgöngu þeirra. “ Bætir Sturla við að hinir ýmsu leiðtogar flokksins muni leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs.

Hanna Katrín svarar stutt og hnitmiðað: „Þú lætur eins og flokkurinn þinn sé sértrúarhópur þar sem stærstu „svikin“ séu að hafa frjálsan vilja og skoðanir.“ Þá tjáir Bjarni Halldór Janusson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og segir á Facebook-síðu Hönnu Katrínar:

„Þegar kemur að svonefndum svikum er ljóst að Sjálfstæðismenn eru Sjálfstæðismönnum verstir. Það er bara fyrirsláttur og óheiðarleiki að koma sökinni annað.“