Hanna katrín birtir sláandi dæmi: konur í lífshættu í heimi sem er hannaður fyrir karla - sjáðu listann

Heimurinn er hannaður fyrir karla. Það er staðreynd og fjölmörg dæmi sem sanna það. Þetta kemur fram í pistli Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar, en hún flutti sláandi ræðu á þingfundi í dag en sérstök umræða um velsældarhagkerfið fór fram á Alþingi. Í ræðu sinni vitnaði Hanna Katrín í nýlega bók, Invisible Women, eða Ósýnilegu konurnar, eftir blaðakonuna Croline Criado Perez. Bókin sýnir svo ekki verður um villst að heimurinn hefur verið hannaður með karla sem mælistiku fyrir almenning allan, sem getur reynst konum lífshættulegt. Hanna Katrín tiltekur nokkur dæmi af ótal mörgum sem er að finna í bókinni.

Þar kemur meðal annars fram:

-        Konur deyja hvernig skorts á upplýsingum um áhrif sjúkdóma og lyfja á þær. Slíkt er rannsakað með tilliti til karla, jafnvel þegar um er að ræða lyf sem eru meira notuð af konum.

-        Hitastig á hefðbundinni skrifstofu er að meðaltali fimm gráðum of kalt miðað við það sem konum þykir að jafnaði þægilegt.

-        Meðalsnjallsími er 5,5 tommur að stærð, óþægilega stór fyrir hendur flestra kvenna.

-        Vinnufatnaður er í flestum tilvikum miðaður við karlkyns fatastærðir. Það þýðir að hann veitir konum minni vernd og getur jafnvel verið þeim hættulegur.

Þá rifjaði Hanna Katrín upp þegar þurfti að aflýsa sögulegum heimsviðburði. Þá átti að fara fram fyrsta geimganga sögunnar þar sem aðeins konur kæmu við sögu. Og hver var ástæðan fyrir því að slá þurfti göngunni á frest? Jú, það var aðeins til einn kvenbúningur. Við þetta má svo bæta að öryggisbelti henta karlmönnum betur en konum, þar sem þau eru oftast prufuð á dúkkum í karlmannsstærð. 

Í ræðu sinni um velsældarhagkerfið sagði Hanna Katrín að holurnar væru þar sem gögn um konur ættu að vera. Þá hvatti hún Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra til að taka tillit til þessara þátta. Hanna Katrín sagði:

„Ekki nota holótt gögn þegar kemur að því að setja mælikvarða og viðmið í þágu velsældar okkar allra.“

Þess má svo geta að bókin hefur strax vakið mikla athygli og hefur Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, hefur mælt sérstaklega með bókinni fyrir fólk sem vinnur við að setja stefnur eða við ákvarðanatöku út um allan heim.

Hér má lesa pistil Hönnu Katrínar í heild sinni.