Hanna björk um hvarf sonarins: „ég veit í hjarta mér hvað gerðist en ég get ekki sannað það“

„Einhver veit eitthvað, einhver veit það sem okkur vantar svo sárlega til að við sjáum heildarmyndina.“

Þetta segir Hanna Björk Þrastardóttir, móðir Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf sporlaust í Dublin þann 9. febrúar síðastliðinn í samtali við DV. Hún telur að einhver búi yfir meiri upplýsingum í tengslum við hvarf hans en áður hefur komið fram. Þá telur Hanna Björk að Jón Þröstur hafi tekið eigið líf.

Hanna Björk er þreytt á að fá ekki frekari upplýsingar um málið og hafa ýmsar sögusagnir verið á kreiki svo sem um peningavandræði eða hann hafi tapað stórum upphæðum í póker og það verið örlagavaldur. Fjölskyldan hefur hafnað þeirri skýringu. Hann hafi verið ábyrgur pókerspilari.

Þá segir Hanna Björk að Jón Þröstur hafi nánast ekkert yfirgefið hótelið þann sólarhring sem hann var í Dublin nema laugardaginn 9 febrúar þegar hann gekk út af hótelinu og hefur ekki sést síðan.

Í samtali við DV segir Hanna Björk að Jón Þröstur hafi líklega tekið hræðilega ákvörðun. Hún telur útilokað að hann hafi verið myrtur.

„Hann hafði setið við spilamennsku og drykkju alla nóttina og var í mesta lagi búinn sofa í einn og hálfan klukkutíma,“ segir Hanna Björk og bætir við: „Auðvitað veit ég þetta ekki fyrir víst en ég get þó sagt að í hjarta mér veit ég hvað gerðist en ég get ekki sannað það. Staðreyndirnar tala líka sínu máli. Hann var með peninga á sér og greiðslukort en greiðslukortin hafa ekki verið hreyfð síðan. Þetta var um hábjartan dag og það voru margir á ferli í borginni. Hann þekkti engan þarna. Ég held að enginn hafi unnið honum mein [...] En ég held líka að hann sé ekki á meðal okkar lengur og að hann hafi tekið hræðilega ákvörðun.“ Telur Hanna Björk að sonur hennar hafi tekið eigið líf. Hún bætir við: „Ég get samt ekki sannað neitt og á meðan svo er veit ég það ekki fyrir víst.“

Er Hönnu umhugað að fá að vita í hvaða sálarástandi sonur hennar var þegar hann fór út af hótelinu. Hanna Björk segir:

„Ég vil fá að vita í hvaða ástandi drengurinn var þegar hann fór. Mér finnst það skipta öllu máli, því í einhvers konar ástandi var hann. Þú gerir ekki svona nema eitthvað hafi gengið á.“

Ítarlegt viðtal við Hönnu Björk er að finna á vef DV.