Húnn snædal var í lífshættu: mótorinn hrundi úr flugvélinni -„hann er á leiðinni til jarðar og í gangi!“

Flug á Íslandi fagnar 100 ára afmæli á þessu ári. Í merkilegri flugsögu landsins er Húnn Snædal ein af goðsögnum íslenska einkaflugsins. Sigmundur Ernir ræddi við hann í heimildaþættinum Saga flugsins, sem var sýndur á Hringbraut um páskana. Þar ræddi Húnn meðal annars þær uggvænlegu ógöngur sem einkaflugmenn geta lent í.

Eitt sinn varð hann fyrir því óláni að missa mótorinn í flugvél sinni til jarðar sem varð þess valdandi að Húnn sveif í lausu lofti á prikinu sínu. „Ég hafði náttúrulega keypt hann [mótorinn] af öðrum manni sem var héðan úr Reykjavík og breytt honum svo. Hann hét Benson B7, ég breytti honum upp í B8 svo hann yrði töluvert fullkomnari og öðruvísi að mörgu leyti, en það var sami hreyfillinn. Svo er ég bara að fljúga til suðurs og er að nálgast völlinn þegar ég heyri einhvern hvell og það kemur hnykkur á vélina. Og ég sem hef verið að fljúga til suðurs er farinn að fljúga til norðurs, frá brautinni. Þetta bara skeði á einu augnabliki og ég leit aftur fyrir mig og niður og sé þá á eftir mótornum. Hann er á leiðinni til jarðar, eldrauður, og í gangi aldrei þessu vant! Honum var nefnilega mjög illa við að vera í gangi, ég veit ekki hvað ég hafði margar nauðlendingar.“

„Ég lenti í Fnjóskadalnum, tvisvar í Hörgárdalnum, einhvern tímann á túni í Eyjafirði, svo framan við Melgerðismela,“ segir Húnn.Það var hægt að lenda nánast [hvar sem er]. Það var svoleiðis að hún [flugvélin] þurfti bara tvo metra til að lenda en þurfti svo kílómeter í loftið þegar það var logn,“ bætir hann við.

Í því tilviki þegar mótorinn hrundi til jarðar gat Húnn sem betur fer komist inn á braut en atvikið átti sér stað á Akureyri: „Það fyrsta sem ég geri þegar ég sé að mótorinn er farinn er að vita hvernig „balansinn“ á vélinni er. Ég finn það með því að halda aftarlega, þá myndi ég geta lent vélinni. Hún myndi ekki stingast niður heldur ég gæti ég látið hana fara svona [varlega] niður. Ég hélt bara góðum hraða niður á braut og lenti mjúklega á brautinni, en náttúrulega nokkuð sunnarlega. Þeir [flugvallarstarfsmenn] höfðu einhvern veginn tekið eftir þessu og brautarbíllinn var kominn mjög fljótt og halaði mig það sem eftir var.“

Aðspurður um hvort hann verði aldrei hræddur á flugi svarar Húnn: „Það er náttúrulega ekki tími til þess þegar svona stendur á. Þetta skeður svo snöggt að maður hefur ekki tíma til þess að vera hræddur.“

Húnn Snædal og Ómar Ragnarsson eru einnig góðir vinir. Hann sagði frá þessu atviki einnig á bloggsíðu sinni.

„Eitt sinn þegar Húnn var að fljúga við Akureyrarflugvöll gerðist sá einstæði atburður að hreyfillinn datt af Prikinu í heilulagi ásamt loftskrúfu sinni.

Húnn horfði á hreyfilinn og skrúfuna skrúfast niður til jarðar, en vegna þeirrar léttingar, sem brotthvarf hreyfilsins hafði á Prikið, mátti hann þakka fyrir að geta náð stjórn á því og nauðlenda heilu og höldnu.

Eftir stendur að Húnn er eini íslenski flugmaðurinn sem hefur misst mótor í bókstaflegri merkingu og hugsanlega sá eini á Norðurlöndum sem hefur lent í slíku.“

Heimildaþáttinn um Sögu flugsins, sem inniheldur þetta frábæra viðtal við Hún, er að finna í heild sinni hér: