Handtekinn í hverfi 101, grunaður um vændiskaup

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru fjölbreytt í gærkvöldi og í nótt. Sex ökumenn voru stöðvaðir, grunaðir um að aka undir áhrifum fíkniefna. Í hverfi 105, rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi stöðvaði lögregla slagsmál. Þá var einn maður handtekinn vegna hótana og færður á lögreglustöð, en var manninum sleppt að lokinni upplýsingatöku.

Þegar klukkan var tíu mínútur gengin í þrjú í nótt dró til tíðinda. Orðrétt segir í dagbók lögreglu:

„Óskað eftir aðstoð lögreglu vegna óvelkomins manns, hverfi 101. Maður handtekinn á vettvangi grunaður um vændiskaup.“

Maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var einnig grunaður um að hafa fíkniefni undir höndum. Var manninum stungið í steininn og verður þar fyrst um sinn, á meðan rannsókn málsins stendur yfir.