Ný greining: salvör skorar hátt

 

Salvör Nordal er líklegri Bryndísi Hlöðversdóttur, Stefáni Jóni Hafstein og Össuri Skarphéðinssyni til að öðlast þá almannahylli sem þarf til að sigra í forsetakosningu. Svo segir í nýrri greiningu sem gerð hefur verið um þá eiginleika sem Íslendingar vilja hafa til staðar í frambjóðendum til embættis Forseta Íslands. Andri Snær Magnason ætti mikla möguleika ef hann ákveður að bjóða sig fram.

 Í greiningunni er lagt upp úr sympatíu, gáfum, fyrri reynslu/störfum, glæsileika og hvort viðkomandi tekst að kynna sig sem fulltrúi almennings. Fram kemur í greiningunni að Ólaf Ragnar Grímsson hafi skort sympatíu þegar hann bauð sig fram árið 1996 en hafi fengið vopn upp í hendurnar þegar andstæðingar gerðu harða atlögu að honum vegna fortíðarinnar. Ólafur Ragnar hafi ekki svarað árásunum og hafi fyrir vikið hlotið samúð kjósenda og þar með öðlast þá sympatíu sem hann þurfti til að sigra í kosningunni.

Hallgrímur Óskarsson verkfræðingur og ráðgjafi hjá Verdicta.com er höfundur greiningarinnar. Hann hefur áður gert rannsóknir sem vakið hafa landsathygli. Hallgrímur er sem dæmi höfundur hugtaksins “sjónarmið sjötugra” sem var gagnrýni á pólitíska stjórnun Íslands.

Hvaða aðferðafræði notar Hallgrímur við greiningu sína?

“Þetta er greining á þeim eiginleikum sem mestu máli skipta fyrir þá einstaklinga sem bjóða sig fram í embætti Forseta Íslands. Ekki formleg rannsókn heldur greining á þeim ummælum sem komið hafa fram af hálfu almennings um þá frambjóðendur sem hafa verið í framboði 1996, 2004, 2012 og 2016. Ég skoðaði ummæli fólks og mótaði svo líkan yfir þá eiginleika sem fólk taldi að mestu máli skipti til að frambjóðandi næði hylli almennings í landinu,” svarar Hallgrímur.

Hann segist hafa unnið greininguna til að auka umræðuna um frambjóðendur og leggja áherslu á hvaða eiginleikar skipti mestu máli. “Þetta er líka hugsað til að útbúa einhvern ramma fyrir þá frambjóðendur sem eru e.t.v. að hugsa um framboð. Til að frambjóðendur hafi efnisatriði til að fara eftir og máta sig við áður en þeir ákveða endanlega hvort þeir fara fram eða ekki.”

 Akkílesarhæll Bryndísar

 Hallgrímur greinir sem fyrr segir fjóra höfuðþætti sem mikilvægustu eiginleikana. Í fyrsta lagi spyr hann hvort viðkomandi forsetaframbjóðandfi sé sympatískur. Í öðru lagi ráði gáfur, þungavigt og reynsla miklu. Glæsileiki sé þriðja atriðið sem góður frambjóðandi þurfi að búa yfir. Í fjórða lagi verði frambjóðandinn að sýna fram á að hann sé fulltrúi almennings en hvorki sérhagsmuna né kerfisins.

 Hringbraut falaðist eftir að Hallgrímur mátaði líkan sitt við nokkra þá frambjóðendur sem nefndir hafa verið. Bryndís Hlöðversdóttir er nýjasti þungavigtarframbjóðandinn sem líkur eru á að bjóði sig fram til embættis Forseta Íslands.

Á Bryndís góðan séns?

\"Hún talar faglega og yfirvegað en getur virkað köld í fasi og framkomu. Þess vegna nær hún e.t.v. ekki nógu vel inn að hjörtum fólks. Bryndís þyrfti að vera hlýrri og skemmtilegri. Hún mætti reyna að vera viðkunnalegri með því að tala meira út frá í gildum sem skipta fólk almenning máli í stað þess að einblína á kaldar staðreyndir.”

Um gáfur, þungavigt og reynslu Bryndísar sem sannarlega skartar tilkomumiklum starfsferli, núverandi ríkissáttasemjari og fyrrverandi rektor svo nokkuð sé nefnt, segir Hallgrímur: “Þessa eiginleika hefur Bryndís í allmiklum mæli en skarar samt ekki fram úr öllum öðrum sem nefndir hafa verið til leiks. Bryndís hefur vissulega komið að ýmsum málum sem krafist hafa þungavigtar og breiðrar þekkingar en hún hefur samt ekki náð að gera sig leiðandi á landsvísu eins og t.d. Salvör Nordal hefur gert í síðferðis- og stjórnarskrármálum eða Andri Snær í umhverfismálum.”

Um þriðja atriði módelsins, glæsileikann, segir Hallgrímur að í Bryndísi megi sjá að fólk skynji glæsileika hennar helst út frá fasi og framkomu. \"En Bryndís nær ekki djúpri tengingu við fólk þegar hún talar og það gæti reynst kenni þröskuldur. Ég held að almenningur skynji Bryndísi nokkuð hlutlaust út frá glæsileika en hann er ekki beinlínis farartálmi fyrir hana.”

Er Bryndís fulltrúi almennings?

“Það er ákveðinn Akkílesarhæll fyrir Bryndísi að tengjast Samfylkingunni vegna þess að Samfylkingin er í djúpstæðum tilvistarvanda, enginn veit fyrir hvað hún stendur. Þess vegna er sú hætta fyrir hendi að fólk efist um að frambjóðendur eins og Bryndís muni standa í lappirnar þegar á reynir, Þá má sem dæmi hugsa um þann linkindarstimpil sem sumt Samfylkingarfólk fékk á sig í Icesave-málinu. Vissulega trúir fólk því að Bryndís muni standa sína plikt gagnvart hagsmunaöflum fjármagnsmarkaða en ekki endilega í ýmsum öðrum málum sem kunna að skipta miklu máli til langs tíma litið. Í heild er Bryndís því ekkert sérstaklega sterkur frambjóðandi og ekki líkleg til að sigra hjörtu Íslendinga í kosningum til embættis Forseta Íslands. Bryndís myndi líklega lúta í lægra haldi fyrir ýmsum þeim frambjóðendum sem þegar hafa verið nefndir en gæti þó náð árangri ef fáir sterkir frambjóðendur verða í framboði. Bryndís Hlöðversdóttir er því í þeirri aðstöðu, eins og sumir aðrir að gengi mun ráðast af því hverjir aðrir verða í framboði.”

Andri Snær sterkur

Víkur þá sögu að nokkrum öðrum nöfnum og verður farið hratt yfir sögu. Um Þorgrím Þráinsson segir Hallgrímur m.a. að hann þyrfti að þjálfa talandann og sýna fram á að hann hafi getu til að tala um þungavigtarmál, Þorgrímur eigi það til að tala um of út frá sjálfum sér en ekki út frá almenningi.

Hvað með Lindu Pé?

\"Linda Pétursdóttir yrði að mörgu leyti álitin vænlegur frambjóðandi en þyrfti að efla þungavigtarhlutann nokkuð mikið og sýna að hún eigi heima í samræðum um öll möguleg mál. Hins vegar er hún svo glæsileg að það eitt og sér vinnur hitt að einhverju leyti upp.”

Nokkur stuðningur hefur mælst í könnunum við Stefán Jón Hafstein. Ef marka má greiningu Hallgríms yrði þó á brattann að sækja: \"Stefán Jón er ekki sterkur frambjóðandi. Hann vantar þennan grunnþátt að geta tengst fólki betur þegar hann talar,” segir Hallgrímur.

Sá karl sem e.t.v. ætti besta möguleika samkvæmt greiningu Hallgríms er Andri Snær Magnason rithöfundur. “Andri Snær er að mörgu leyti sterkur frambjóðandi. Sjálfsagt deila ekki allir skoðunum hans í umhverfismálum en færa má rök fyrir því að sá hópur sé ekki í meirihluta. Umræðan um afköst Andra Snæs sem rithöfundar hafa þó að einhverju leyti dregið úr hans möguleikum því hann hefur ekki svarað þeirri umræðu með óyggjandi hætti.”

Salvör fær toppeinkunn

Nafn Salvarar Nordal er fremur nýlegt í flóru mögulegra kandídata. Hún fær toppeinkunn hjá Hallgrími og myndi eiga mikla möguleika. \"Án efa er Salvör mjög vænlegur og sterkur kandídat sem hefur flest til brunns að bera sem góður frambjóðandi þarf að hafa. E.t.v. þyrfti hún að gæta þess að vera ekki um of hlutlaus í tali, fari hún fram. En það er u.þ.b. það eina sem hún þyrfti að hafa í huga, allt annað vinnur mjög með henni,” segir Hallgrímur.

Um Össur Skarphéðinsson og Guðna Ágústsson telur Hallgrimur að þótt þeir tveir kunni að skora á sumum sviðum muni fortíðin þvælast fyrir hjá báðum, líkt og hjá Bryndísi Hlöðversdóttur. Össur og Guðni kunni að skora hjá eldra fólki en meira þurfi til. \"Það eru einfaldlega of margir sem telja Guðna fulltrúa gamalla tíma,” segir Hallgrímur og nefnir að hann þyki fulltrúi kerfisins fremur en almennings.

En hvað með Þorgerði Katrínu?

\"Þorgerður Katrín er að mörgu leyti góður og vænlegur frambjóðandi en tiltekin ummæli hennar og þátttaka í hrunstjórninni gæti skemmt töluvert fyrir henni. Hún hefur samt náð að láta fólk skynja að hún sé fulltrúi almennings frekar en fulltrúi kerfisins.”

Spurning með Vigfús Bjarna

Sá sem skoraði næsthæst í könnun Fréttablaðsins í vikunni var Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur. Aðeins Katrín Jakobsdóttir fékk meiri stuðning í könnun Fréttablaðsins en presturinn, enda Katrín með alla yfirburði samkvæmt greiningu Hallgríms, skorar hátt í öllum fjórum lykilþáttunum.

Á sjúkrahúspresturinn séns?

\"Vigfús Bjarni glímir við þann þröskuld að vera ekki alveg orðinn þjóðþekktur. Og þegar fólk þekkir lítt til frambjóðenda er ólíklegra að það kjósi viðkomandi. Vigfús Bjarni má þó eiga það að það fólk sem hefur kynnst honum er duglegt að tala jákvætt um hann þannig að hann virðist hafa góð áhrif á fólk. Fyrstu myndirnar sem birtust af honum voru samt ekki til að styrkja ímynd hans því þótt flestum sé illa við pjatt og prjál þá er það engu að síður staðreynd að Íslendingar vilja hafa forseta sinn glæsilegan og Vigfús Bjarni gæti aðeins fínpússað sig betur hvað það varðar. Einnig er það hluti af því að vera glæsilegur að tala fallegt mál og það er ekki til bóta fyrir frambjóðanda að segja „mér langar...” í þeim risastóra glugga sem hann fékk í fréttum RÚV. Í heild virðist Vigfús vanta allnokkuð upp á að vera sannfærandi kandídat þó að ekki sé hægt að útiloka hann með öllu. Sú staða gæti komið upp að ef helstu kandídatar Vigfúsar Bjarna eru pólitíkusar þá gæti myndast móment í þá veru að nú eigi ekki að kjósa pólitíkus. Þá gæti komið upp raunhæftur möguleiki fyrir Vigfús Bjarna að ná kjöri ef hann bætir sig jafnt og þétt á öðrum eiginleikum.\"

Sjálfsblekking sumra

Hallgrímur leggur áherslu á að ekki sé um fræðilega greiningu að ræða en ummæli fólks sem hann notist við sem aðalrannsóknartækið á löngum tíma gefi nokkra vísbendingu. Í módelinu sem hann notist við séu sumir eiginleikarnir mjög huglægir til dæmis hvað varðar sympatíuna.

En getur sú staða komið upp að frambjóðandi telji sig sympatískan á sama tíma og þjóðin sjái hann alls ekki sem slíkan?

\"Já, flestir eru þeirrar skoðunar að þeir sjálfir séu tiltölulega viðkunnanlegir, sympatískir, ákveðnir, sérstakir, reynslumiklir, hugmyndaríkir, glæsilegt þungavigtarfólk. Þannig er skynjun flestra sem taka svona slag en sú skynjun þarf alls ekki að endurspegla skynjun almennings. Það er ekki nóg að frambjóðandi meti sig sjálfan sem frambærilegan, lykilatriðið er að fólk telji frambjóðandann frambærilegan. Þetta fer oft ekki saman. Þess vegna kemur nú fram fólk sem vill bjóða sig fram og hefur trú á sér en hefur tiltölulega lítið erindi í það verkefni.”

Um söguna í þessum efnum segir Hallgrímur að það sem hafi breyst á síðari árum sé að áður fyrr hafi þarfir fólks gagnvart frambjóðendum til embættis Forseta Íslands fyrst og fremst snúist um eiginleika 1-3 sem nefndir eru hér að ofan. “Þú þurftir sem frambjóðandi að vera viðkunnanlegur, ná alþýðlegum tengslum við fólk, vera reynslumikill og glæsilegur á ákveðinn hátt. Að mörgu leyti lifa þessar áherslur enn en það má segja að nú vilji fólk hafa forseta Íslands sjálfstæðari en áður. Það er krafa um að viðkomandi sé útvörður almennings frekar en virðulegt og táknrænt skraut.”

Óvinir ÓRG buðu honum á Bessastaði!

Ekki verður skilið við söguna án þess að nefna að þótt Hallgrímur greini sympatíu sem efsta á blaði yfir eftirrsóknarverða eiginleika forsetaframbjóðenda sjá ekki alllir að Ólafur Ragnar Grímsson sé sérlega ríkur af sympatíu. Hallgrímur er með kenningu sem svarar þessari spurningu:

“Að vera sympatískur er eitt það allra mikilvægasta sem fólk vill finna í fari frambjóðenda til forseta Íslands. Ólafur Ragnar Grímsson er ekki gott dæmi um sympatískan mann en hvers vegna sigraði hann þá árið 1996? Að mínu mati er mjög sérstakt að Ólafur Ragnar hafi náð árangri þá þrátt fyrir skort á sympatíu, einkum fyrst eftir að hann ákvað framboðið, en kannski voru það “hinir”, það er að segja andstæðingar hans sem gerðu hann sympatískan? Miklar árásir urðu, ásakanir um vafasama fortíð, eiginleika sem væru embættinu ekki sæmandi. En Ólafur Ragnar Grímsson sýndi stillingu og svaraði engu. Hann kom fram á yfirvegaðan hátt og ræddi ekki þær ásakanir sem hann varð fyrir. Þess vegna vorkenndi fólk Ólafi Ragnari, þess vegna fann fólk fyrir samúð með honum sem kveiki svo þá hugmynd að hann væri þolandi, sympatískur,\" segir Hallgrímur.

\"Hvað varðar alla aðra eiginleika í þessu greiningarmódeli, skoraði Ólafur Ragnar hátt,\" bætir Hallgrímur Óskarsson hjá Verdicta við. Lesa má blogg hans um ráðgjafarmál á vefnum www.haloskarsson.com.

 Viðtal: Björn Þorláksson