Hlustaðu á halldór hvæsa á svein: „þetta er bara einfalt, annað hvort ferð þú eða við förum, punktur“

Halldór Halldórsson, starfsmaður Reykjalundar, hvessti sig við Svein Guðmundsson, stjórnarformann SÍBS, eftir starfsmannafund sem fór fram um hádegisbil. Blaðamaður Hringbrautar var að taka viðtal við Svein sem hafði lagt á flótta undan fjölmiðlamönnum, þegar Halldór birtist til að færa honum vantraustsyfirlýsingu, undirritaða af öllum starfsmönnum. Sveinn gekk á brott en Halldór lét ekki þar við sitja, hvessti sig og kallaði á eftir formanninum.

„Þetta er bara einfalt, annað hvort ferð þú eða við förum, punktur.“

Hlusta má á ummælin neðst í fréttinni

Hringbraut ræddi við fjölda starfsmanna Reykjalundar eftir starfsmannafundinn. Mikill titringur var á svæðinu, sumir í áfalli yfir brottrekstri tveggja starfsmanna og aðrir reiðir. Ekki er hægt að segja að starfsmönnunum tveimur hafi verið sagt að taka pokann sinn, því þeir voru einfaldlega reknir og fengu hvorki að kveðja né taka eigur sínar með sér. Þá var lokað fyrir aðgang að tölvum. Starfsmennirnir tveir eru Birgir Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri Reykjalundar og Magnús Ólason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.

Báðir hafa þeir starfar lengi hjá Reykjalundi, Birgir í yfir 12 ár og Magnús í yfir 35 ár. Þetta þýðir að helmingur af framkvæmdastjórn Reykjalundar var sagt upp. Ekki hefur enn verið auglýst í hvoruga stöðuna og í samtali við Hringbraut sagði Sveinn að það væri verið að vinna í því með ráðningarfyrirtæki að leita að hæfum einstaklingum. 

Halldór Halldórsson, starfsmaður Reykjalundar, hefur unnið þar síðan 1988. Í samtali við Hringbraut segir hann að staðan sem nú sé upp komin á Reykjalundi sé að hafa áhrif á sjúklinga og ástand þeirra.

BLM: Er mikil reiði hjá starfsfólki ?

Halldór: „Heldur betur, heldur betur. Ég er búinn að vera í þessu húsi síðan 1988 og ég hef aldrei upplifað aðra eins steypu, aldrei. Þessi þessi stjórn SÍBS fer ekki frá, þá fer bara starfsfólkið. Hvað ætlið þið þá að gera við sjúklingana?“

BLM: Telur þú að sjúklingarnir séu að bitna fyrir þetta ástand er í gangi núna ?

Halldór: „Upp á síðkastið hefur okkur liðið alveg skelfilega andlega og það er mjög erfitt að vera að einbeita sér að meðferð sjúklinga, þegar maður er ekki alveg með fókus hvað maður er að gera. Það er auðvitað mjög slæmt. Það síðasta sem við viljum, við starfsfólk Reykjalundar, er að það bitni á okkar skjólstæðingum. Við berum mikla virðingu fyrir því að sú starfsemi geti haldið áfram eins og hefur verið í gegnum tíðina. Hér hefur ríkt mikill friður og mjög góður andi í húsinu og við höfum fengið mjög marga plúsa í kladdann. En svo kemur svona fólk, eins og Sveinn Guðmundsson og þeir sem eru bakvið hann hjá SÍBS, og rústa þessum stað á nokkrum dögum. Nú verður bara mál að linni.“ 

BLM: Er bara komið nóg?

Halldór: „Algjörlega“

Hér fyrir neðan má hlýða á ummæli Halldórs sem einnig tjáir sig um hina alvarlegu stöðu sem upp er komin á Reykjalundi.