Halda styrktarleik fyrir aron sem lenti í alvarlegu bílslysi

Þann 5. ágúst síðastliðinn lenti hinn 21 árs gamli Aron Sigurvinsson í alvarlegu bílslysi við Rauðhóla. Hann var í tíu daga á gjörgæslu en er blessunarlega á batavegi. Við tekur langt og strangt endurhæfingarferli sem mun reyna mikið á bæði hann og fjölskyldu hans. 

Knattspyrnufélagið Elliði, í samstarfi við Fylki, mun af þessum sökum halda styrktarleik fyrir Aron á morgun, föstudaginn 23. ágúst. Ægir frá Þorlákshöfn mætir í heimsókn á Würth-völlinn undir flóðljósum klukkan 19:30.

Frítt verður á völlinn en frjáls framlög eru vel þegin. Frábær tilboð verða á hamborgurum, sælgæti, gosi og öðrum köldum veigum. Allur ágóði mun renna til Arons.

Í hálfleik verður keppt um bíómiða líkt og þekkist á heimaleikjum Fylkis, en þar fá þátttakendur að spreyta sig á að koma knettinum í örsmátt mark. 

Í tilkynningu frá Elliða segir að Aron sé mikill Fylkismaður og gæðablóð. „Okkur þætti vænt um að sjá sem flesta mæta og styrkja þetta góða málefni!“

Aron spilaði með Elliða árið 2017 og þar áður með 2. flokki Fylkis. Í fyrra spilaði hann með Fjarðabyggð og Huginn í 2. deildinni. Í byrjun sumars spilaði hann einn leik með Hetti/Huginn í 3. deildinni.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn en vilja leggja sitt af mörkum er bent á reikning Arons: Reikningsnúmer 315-26-8877 og kennitala 020798-2549