Hafliði vinur minn er dáinn:tökum ekki vináttu sem sjálfsögðum hlut, hjálpum þeim að rata inn í ljósið að nýju

„Það getur verið erfitt að eignast vini, sanna vini. Ég á fullt af vinum og er heppinn að eiga þá að. Vinasamböndin eru af ýmsum toga allt frá því að vera „high five vinur“ og alveg í bestu vinina sem maður treystir fyrir öllu. Einn af þeim bestu hét Hafliði Ottósson,“

segir Óli Stefán Flóventsson fyrrum knattspyrnukempa og nú knattspyrnuþjálfari í mikilvægum og áhrifaríkum pistli sem birtur er á Hringbraut. Þar fjallar hann um djúpa vináttu sína og Hafliða Ottóssonar.

Við félagarnir komum úr ólíkum áttum, ég úr heimi íþrótta en hann var galvaskur sjóari. Það var samt alltaf þannig að hann sýndi boltanum mikinn áhuga og á sama hátt hafði ég gaman af hans sögum af sjómannslífinu og öllu sem því tengdist. Hafliði var nefnilega duglegur sjómaður, enda af miklum sjómannsættum kominn.

Óli Stefán bætir við að Hafliði hafi iðulega verið hrókur alls fagnaðar og styrkur hans og kraftur var gleði og léttleiki.

„Hann gaf þá gjöf að brosa sem er mjög vanmetið í hinu daglega lífi,“ segir Óli og bætir við:

28. desember 1996 kom Hafliði í heimsókn til mín um kvöldmatarleytið. Við áttum spjall sem ég gleymi aldrei. Á þessum tíma sem hann sat hjá mér og spjallaði man ég að ég hugsaði að ég væri afar heppinn að eiga hann sem vin. Þegar að nóg var komið að kjaftagangi, var komið að kveðjustund. Í anddyrinu tókum við gott faðmlag og ég horfði á eftir honum ganga eftir stéttinni og setjast uppí Galantinn sinn. Í dag sé ég þetta „móment“ í slow motion“. Ég sé fyrir mér þegar að hann opnaði bílhurðina, leit á mig og brosti til mín sínu fallega brosi, settist inn í bílinn og ók á brott. Þetta var í síðasta skipti sem ég sá Hafliða Ottósson.

Óli Stefán segir enn fremur að Hafliði hafi verið í því hlutverki að gefa af sér og gleðja aðra en á sama tíma náð á að fela innri baráttu og eigin vanlíðan. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir því innra stríði sem hans góður vinur átti í.

„Ég leita enn þá að merkjum sem hann gæti hafa verið að gefa frá sér í kalli á hjálp. Sá innri djöfull sem hann barðist við hafði betur. Hafliði tók eigið líf árla morguns 29. desember 1996“.

Í dag tekur Óli Stefán vináttu ekki sem sjálfsögðum hlut.

„Ég er alls ekki feiminn við að opna mig og ræði tilfinningar mjög opinskátt því ég vil að vinir mínir geri það sama við mig. Ég reyni að komast í gegnum bros þeirra ef það skyldi leynist neyðaróp að innan því það er oftar en ekki vel falið“, segir Óli Stefán og bætir við að lokum:

„Hugsum vel um hvort annað, því við vitum ekki nema okkar nánustu séu í myrkrinu og þurfi hjálparhönd til að rata inn í ljósið að nýju“.

Hér má lesa pistil Óla Stefáns í heild sinni.