Hafa borist fjölda ábendinga vegna hvarfs Jóns Þrastar

Hafa borist fjölda ábendinga vegna hvarfs Jóns Þrastar

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar Jónssonar, segir fjölda ábendinga hafa borist aðstandendum og lögreglu í tengslum við hvarf Jóns Þrastar í Dyflinni fyrir tæpum tveimur vikum. Farið verður yfir ábendingarnar á fundi milli aðstandenda og lögreglu í kvöld og stór sjálfboðaleit fer fram á morgun. Vísir.is greinir frá.

Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar síðan hann sást um 11 leytið í Whitehall úthverfi Dyflinnar á laugardaginn 9. febrúar. Tveimur dögum síðar flaug fjölskylda Jóns Þrastar til borgarinnar til að hjálpa til við leitina. Lögreglan í Dyflinni fer með rannsókn málsins og segir Davíð Karl í samtali við Vísi að leitað hafi verið að Jóni Þresti á skipulögðum leitarsvæðum í borginni undanfarna daga og að hann sé bjartsýnn á að allt að 100 manns muni taka þátt í umfangsmikilli leit á morgun.

Hann segir að lögreglan í Dyflinni sé að vinna úr fjölda ábendinga, sem séu eins og gengur og gerist misáreiðanlegar. „Þetta hefur allt verið tekið saman og sent inn til lögreglu sem er með þetta til skoðunar. Þetta náttúrulega tekur tíma, að vinna úr ábendingum, það þarf að fara yfir upptökuvélar og sannreyna ábendingarnar og svoleiðis. Þannig að það er fullt af nýjum ábendingum frá því að við fórum að leita en það eru engar frekari upplýsingar um það hvar hann gæti mögulega verið að svo stöddu. En það er verið að vinna úr fullt af ábendingum sem er alltaf góðs viti.“

Nýjast