Hætti á geðlyfjunum og hóf nýtt líf

Einar Björnsson, 48 ára öryrki, segir magnaða örlagasögu sína í þættinum Örlögin á Hringbraut í kvöld, en hann rekur þá alvarlegu geðveiki sem hann átti lengi við að stríða til mikils kvíða, mótlætis og vanlíðanar í æsku.

Móðir hans átti hann 16 ára að aldri og Einar minnist ekki æsku sinnar með mikilli gleði. Sár fátækt og basl á heimili hans varð til þess að honum var endalaust strítt í skólanum og strax innan við fermingu var hann farinn að glíma við sjálfsvígshugsanir. Hann leiddist út í neyslu, á endanum harðra efna, en gat sigrast á vímunni á þrítugsaldri. Þá ágerðist geðveikin og geðhvörfin mögnuðust, jafnt þunglyndi og örlyndi. Hann var settur á hvert geðlyfið af öðru, undir restina sjö ólík meðöl sem höfðu alvarlegar aukaverkanir svo hann varð einnig að taka hjarta- og meltingarlyf. Þegar raflost skilaði litlum árangri, öðrum en þeim að ræna hann langtímaminninu og getunni til lestrar, stóð til að senda hann á Arnarholt til varanlegrar geymslu eins og hann orðar það sjálfur; honum hafi verið sagt að ekkert væri hægt að gera fyrir hann.

Hann tók þá mikilvægustu ákvörðun lífs síns. Innilokun í lyfjarússi á gamaldags stofnun uppi í sveit var óhugsandi og ömurleg framtíð - og hann tók sjálfur ákvörðun um bata, fékk inni á Hvítabandinu sem þá var verið að opna og naut aðstoðar fagfólks sem leit á veikindi hans allt öðrum augum en hann hafði áður kynnst. Og smám saman tókst honum að losa sig við geðlyfin - og þótt hann verði ennþá var við einkenni depurðar og örlætis hefur hann komið sér upp kerfi og rútínu sem hefur haldið honum góðum og í jafnvægi á síðustu árum.

Saga Einars er merkileg sigursaga manns sem neitaði að gefast upp þótt í mikil óefni stefndi.

Örlögin eru á dagskrá Hringbrautar klukkan 20:30 í kvöld.