Gurrý var kölluð illum nöfnum, ástvinir tóku þátt og hún missti tökin á lífinu: „ég sofnaði oft í sárum“

Guðríður Torfadóttir, eða Gurrý varð heimsfræg á Íslandi sem einn þjálfara í íslensku raunveruleikaþáttunum Biggest Loser. Í viðtali við Fréttablaðið greinir hún frá því hvernig hún missti tökin á lífinu í kjölfar hrinu árása frá fólki sem taldi hana vera of grimma við keppendur sem og að ýta undir fitufordóma. Segir Gurrý að það hafi verið líkast því að fólk hefði engan hemil á sér og skyndilega var hún ein umdeildasta manneskja landsins og kölluð öllum illum nöfnum.  

„Það var djöfulli erfitt. Miðlarnir og athugasemdakerfi fjölmiðla loguðu. Harðar persónulegar árásir á mig sem manneskju voru gerðar úr öllum áttum.“

Gurrý segir að hún hafi misst tökin og gefist upp.

„Ég man sérstaklega eftir einni viku þar sem gagnrýnin, umtalið og skvaldrið náði einhverjum alveg nýju hæðum. Persóna mín var á öllum miðlum landsins til umfjöllunar og fólk sem þekkti mig ekkert var orðið sérfræðingar í mér og felldi dóma um mig og mitt líf.“

Bætir Gurrý við að umræðan í lokuðum grúppum hafi verið svæsin þar sem ástvinir hennar voru sumir þátttakendur. Gurrý segir:

„Nokkrir ástvina minna sem reyndu að koma mér til varnar urðu sjálfir fyrir gríðarlegum ósanngjörnum árásum. Að verða vitni að því hafði mikil neikvæð áhrif á mig, okkur fjölskylduna og eftir á að hyggja miklu meiri en mig hefði grunað.“

Gurrý bætir við:

„Ég sofnaði oft í sárum kvíða því ég náði ekki að klára verkefni dagsins, en það fer mér ekkert sérstaklega vel. [...] Ég beitti þeim aðferðum sem ég kunni og reyndi að loka á árásirnar á netinu en í mikilli vanlíðan. Ég var auðvelt skotmark enda svolítið hvatvís og stundum fannst mér eins og að fólk hefði ánægju af því að taka mig niður. Fólk bara lét allan fjandann flakka og leyfði sér að segja svo miklu, miklu meira en það myndi gera augliti til auglitis.

Á endanum náði hún botninum og fór í kulnunarástand sem hún lýsir á þá leið að hún hafi alltaf verið stressuð og hvert verkefni vaxið í augum hennar. Þá fannst henni orðið erfitt að hreyfa sig. Það tók meira en ár að ná aftur kröftum. Eftir erfiða leið til baka iðar Gurrý í skinninu, reynslunni ríkari og öflugri en nokkru sinni fyrr að takast á við komandi verkefnum í heilsurækt.

Hér má lesa viðtalið í heild sinni.