Gunnlaugur Bragi: „Teljum okkur áfram þurfa að berjast fyrir okkar réttindum“

Gunnlaugur Bragi: „Teljum okkur áfram þurfa að berjast fyrir okkar réttindum“

Hinsegin dagar standa yfir um þessar mundir, tuttugasta árið í röð. Hátíðin hefur aldrei verið stærri og stendur yfir í 10 daga frá 8. – 17. ágúst með yfir 50 viðburðum víðs vegar um Reykjavík.

Fyrsta hátíðin var haldin árið 1999 þar sem 1.500 manns komu saman til að sýna samstöðu og vekja athygli á samkynhneigðum í samfélaginu. Ári síðar hópuðust 15.000 manns saman og gengu saman niður Laugaveginn. Segja má að Hinsegin dagar hafi vaxið gríðarlega á þessum tuttugu árum því hátíðin er orðin fjölsóttasta og fjölbreyttasta hátíð landsmanna. 

Snædís Snorradóttir hitti Gunnlaug Braga Björnsson, formann Hinsegin daga, og ræddi við hann um hátíðina.

„Í öllu falli þýðir þetta menning, fjölbreytileiki, mannréttindi. Hinsegin dagar, Reykjavík Pride, er ein fjölsóttasta, sennilega fjölsóttasta, útihátíð landsins, ef við erum að horfa á Gleðigönguna og útihátíðina á eftir,“ segir hann aðspurður um hvað Hinsegin dagar þýði fyrir Íslendinga.

„Þetta er tímabil þar sem hinsegin fólk verður sýnilegra en öllu jafna. Við erum að staðfesta það að við erum til staðar og teljum okkur áfram þurfa að berjast fyrir okkar réttindum. En um leið erum við að fagna og þakka fyrir það sem hefur áunnist. Það hefur auðvitað gríðarlega margt áunnist á síðustu árum og áratugum,“ bætir hann við.

Viðtalið við Gunnlaug Braga má finna í heild sinni hér:

Nýjast