Guðmundur: „það jafngildir að um þúsund bifreiðar yrðu teknar af götunum“ - ætla að framleiða olíu úr sláturfitu

Fyrirtækið Vistorka á Akureyri, í samstarfi við fyrirtækið Moltu, hefur hafið undirbúningsvinnu að skipta út notkun á einni milljón lítrum af olíu í Eyjafirði í lífdísil. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku, segir að þetta sé hægt að gera á mjög auðveldan hátt og að tæknin sé nú þegar til staðar. Áætlað er að það taki ekki nema tvö ár að framkvæma orkuskiptin.

„Við sjáum fyrir okkur að vinna aðallega líf dísil úr fitu sem kemur með sláturúrgangi til Moltu. Þannig mætti vinna stærstan hluta þess. Við gerum ráð fyrir að verkefnið muni kosta um fimm hundruð milljónir króna og greiðast upp á um 15 árum. Því er þetta hagkvæmt verkefni sem og að minnka losun í Eyjafirði.“

Lífdísilinn verður framleiddur úr lífrænum úrgangi sem fellur til á svæðinu, eins og sláturfitu og lífrænum úrgangi sérstaklega safnað saman frá heimilum og fyrirtækjum á svæðinu. Einnig verður steikingarolíu safnað saman, en íbúar í Eyjafirði hafa undanfarið ár getað fengið Grænu trektina heim til sín til að safna steikingarolíu heima og skila inn. Steikingarolía getur valdið stíflum í holræsakerfum ásamt því að hún er alls ekki góð fyrir umhverfið. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa enn ekki getað nýtt sér þennan möguleika. Guðmundur segir að með þessu verkefni er hægt að minnka losun á koltvísýringi um 2.600 tonn, en það samsvarar því að taka um 1000 bíla af götum landsins.

„Það jafngildir að um þúsund bifreiðar yrðu teknar af götunum. Rafbíll kostar um fjórar milljónir að meðaltali. Þúsund bílar kosta um fjóra milljarða en þetta verkefni um 500 milljónir og það borgar sig upp hratt,“ segir Guðmundur