Guðmundur Andri varð fyrir árás í Hagkaup: „Það vall upp úr honum reiðilesturinn“

Guðmundur Andri varð fyrir árás í Hagkaup: „Það vall upp úr honum reiðilesturinn“

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar varð fyrir árás í Hagkaup í Garðabæ í fyrrakvöld. Hann greinir frá þessu á Facebook. Guðmundur var nýkominn að norðan og var að kaupa nauðsynjavörur fyrir heimilið. Hann var nýkominn inn, enn þá heyrist kallað:

„Samfylkingardrulla.“

Guðmundur Andri segir:  „Hann leit út eins og hver annar „sorrí-með-mig“-Garðbæingur (sbr. Baggalútslagið); í fallegum ullarjakka og með vandaðan gráan trefil vafinn um hálsinn, í hvítum jogging-buxum og með hannaða hárklippingu, með hárbrúski og rakstri. Verðbréfagutti í kasúal klæðnaði.“

Guðmundur Andri kveðst hafa horft á manninn strangur á svip en svo haldið áfram a´safna mat í körfuna, tómötum, banönum, kaffi, kattamat.

„ ... þá heyrði ég aftur ókvæðisorð og leit upp, sá engan en þegar ég steig nokkur skref til hliðar sá ég hann þar sem hann horfði á mig æstur:

„Ertu að tala við mig?“ spurði ég og þá kom ný gusa um það hvílíkur lygari ég væri og viðbjóður, ég vildi flytja inn í landið barnaníðinga frá Svíþjóð, hvort ég vissi ekki hvernig ástandið væri í Svíþjóð. Hann titraði af reiði. Hann var svo hræddur við alla múslimana sem hingað væru á leiðinni frá Svíþjóð og reiður mér fyrir að standa fyrir þessum innflutningi.

Guðmundur Andri bætir við:

„Ég lagði ekki í að spyrja hann hvað honum fyndist um 3. orkupakkann en sagði honum að hætta að áreita mig, annars myndi ég kalla á öryggisvörð og fór. Það var einhver óhugur í mér.“

Guðmundur Andri kveðst aldrei áður hafa staðið augliti til augliti við netbræðina eins og hún lítur út í raunveruleikanum. Guðmundur Andri segir:

„Svona leit hann þá út, reiði maðurinn í athugasemdakerfunum. Kannski var þetta veikur maður en það sem vall upp úr honum var sami reiðilesturinn og við getum daglega séð á netmiðlum og heyrt skötuhjúin á útvarpi Sögu draga upp úr viðmælendum sínum til að eitra hugi vesalings gamla fólksins sem hefur ekki lengur Sagnaslóð í útvarpinu að hlusta á.“

Þá segir Guðmundur Andri að lokum:

„Það er ábyrgðarhluti að næra reiði af þessu tagi eins og maður sér stundum stjórnmálamenn gera á kaldrifjaðan hátt til að valdefla sig. Það er hættulegt. Þetta er vissulega sálsýkisþrugl en sett saman úr einföldum staðhæfingum sem beinast að djúprættum kenndum í okkur, ótta og vanþekkingu í jöfnum hlutföllum.“

Nýjast