Guðlaugur Þór gagnrýnir Davíð og Þorstein: „Svona var þetta aldrei“

Guðlaugur Þór Þórðarson er gestur í Mannamáli annað kvöld:

Guðlaugur Þór gagnrýnir Davíð og Þorstein: „Svona var þetta aldrei“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut annað kvöld. Þar fer hann um víðan völl í einlægu viðtali. Vitanlega er rætt um pólitík og stöðu Sjálfstæðisflokksins en einnig ýmislegt fleira áhugavert.

Svo virðist sem sótt sé að Sjálfstæðisflokknum úr öllum áttum, til að mynda frá Miðflokknum og Viðreisn. Aðspurður um hvort flokkurinn sé að kremjast á milli og augljóslega að minnka segir Guðlaugur: „Nei það tel ég nú ekki vera. Við höfum alltaf þolað það að sveiflast í skoðanakönnunum, sem skiptir mjög miklu máli. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem maður ólst upp í.“

Hann segir helstu nýlunduna vera óvægna gagnrýni úr nokkuð óvæntri átt.

„Það sem er nýtt, af því að ég er búinn að vera svo lengi í þessu, að þú ert með fyrrum formenn sem eru svona gagnrýnir á Sjálfstæðisflokkinn og eru bara að hamast í því mjög lengi. Við erum annars vegar með Þorstein Pálsson, sem er farinn í annan flokk, og svo Davíð Oddsson.“

Guðlaugur telur að þessi gagnrýni trufli flokkinn. „Já auðvitað gerir þetta það og þetta er líka bara ný upplifun, af því að svona var þetta aldrei. Það er ekki þannig að í Sjálfstæðisflokknum gengu allir í beinni röð. Ég er búinn að vera á öllum landsfundum síðan ég gekk í flokkinn, ég er búinn að vera á flokksráðsfundum, öllu, og menn takast harkalega á. Það er hins vegar nýtt að menn gera það á opinberum vettvangi, fyrrum forystumenn. Það er bara nýtt umhverfi og það er eitthvað sem við erum að fóta okkur í.“

Mannamál er á dagskrá Hringbrautar á fimmtudagskvöld klukkan 20:00.

Nýjast