Guðlaugur þór er ættleiddur: „foreldrar mínir voru búnir að bíða lengi eftir barni“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut annað kvöld. Þar fer hann um víðan völl í einlægu samtali. Á meðal þess sem hann ræðir í fyrsta sinn á opinberum vettvangi er sú staðreynd að hann er ættleiddur.

Guðlaugur Þór fæddist í Reykjavík þann 19. desember árið 1967. Borgnesingurinn kom þó fljótt í ljós. Guðlaugur Þór segir: 

„Ég ólst upp í Borgarnesi og átti mjög góð ár þar.“

Aðspurður um hvort það hafi haft einhverja þýðingu fyrir hann sem barn að vera ættleiddur segir Guðlaugur: „Ég hef svo sem engan valkost, þannig að ég hef ekki samanburðinn. Þannig að ég veit það ekki. Foreldrar mínir voru náttúrulega búnir að bíða mjög lengi eftir barni og ég held að ég hefði ekki getað fengið neitt betri umgjörð. Það var mikil eftirspurn eftir manni og ég hefði ekki viljað skipta við neinn þegar kemur að uppeldi og umhverfi. Kannski er allt í minningunum í einhverjum rósrauðum bjarma en það var svakalega gaman að alast upp í Borgarnesi.“

\"\"

Guðlaugur segir að hann hafi hitt blóðmóður sína en fer ekki nánar út í þá sálma. Honum finnst ekki sem að það að hafa verið einbirni hafi verið eitthvað sérstakt mál út af fyrir sig, hann þekki náttúrulega ekkert annað en telur sig ekki hafa verið umvafinn í bómull.

„Ég held ekki. Ég fékk náttúrulega afskaplega gott atlæti og það var haldið mjög vel utan um mig. Ég held að það hafi þurft svolitla þolinmæði frá foreldrum mínum, og kannski sérstaklega móður minni.“

Guðlaugur tekur dæmi og vísar til óhapps í æsku, þar sem hefði getað farið mun verr. „Ég höfuðkúpubrotnaði og var nú vart hugað líf, þannig að það gekk nú á ýmsu. [Ég] þótti kannski eitthvað uppátækjasamur, allavega hef ég heyrt það frá samferðafólki mínu,“ segir hann og bætir við:

„Það var kannski ekki mikil lognmolla en auðvitað hefur allt mótað mann. Ég hugsa til dæmis að mér finnst gaman að grúska, kannski er það út af því að stundum var maður einn. Ég er náttúrulega mjög félagslyndur eins og einbirni eru oft, en á sama tíma líður mér mjög vel einum. Þetta var auðvitað öðruvísi á þeim tíma, það var svo lítið áreiti.“

Mannamál er á dagskrá Hringbrautar á fimmtudagskvöld klukkan 20:00.

Við minnum á Facebook-síðu Hringbrautar. Þar er að finna áhugaverðar fréttir og þá er ýmislegt spennandi framundan fyrir vini Hringbrautar á Facebook. SMELLTU HÉR og vertu vinur okkar á Facebook.