Guði sé lof að til er hæstiréttur [í kaupmannahöfn]

Um þessar mundir eru liðin eitt hundrað ár frá því að lagt var fram frumvarp á Alþingi um stofnun Hæstaréttar. Við tilurð fullvalda konungsríkisins Íslands 1. desember 1918 var gert ráð fyrir því að Hæstiréttur Danmerkur yrði áfram æðsti dómstóll í íslenskum málum „þar til Ísland kynni að ákveða, að stofna æðsta dómstól í landinu sjálfu“ eins og það var orðað, en þangað til yrði Íslendingur skipaður í eitt dómarasæti í Hæstarétti í Kaupmannahöfn og skyldi sú skipan koma til framkvæmda næst þegar sæti losnaði í dómnum.

Aldrei kom til þess að Íslendingur yrði skipaður hæstaréttardómari í Kaupmannahöfn því Alþingi samþykkti stofnun íslensks Hæstaréttar árið 1919. Þar með var dómsvald Hæstaréttar Dana í íslenskum málum afnumið. Frumvarpið kom til framkvæmda í ársbyrjun 1920 og 16. febrúar það ár tók séríslenskur Hæstiréttur til starfa.

Talsverður uggur var í mörgum hér við að flytja æðsta dómsvaldið inn í landið. Ýmsir Íslendingar töldu að fátækt stæði í vegi fyrir því að hægt yrði að búa svo um æðsta dómstól að öruggt væri. Því var einnig haldið fram að skortur væri á hæfum lögfræðingum til starfans og sömuleiðis hæfum málsflutningsmönnum. Jón Magnússon forsætisráðherra sagði í umræðum um stofnun íslensks Hæstaréttar 1919 að líkast til yrði hörgull á mönnum „sem hafa átt svo mikið við dómstörf að jafnfærir teljist mönnum þeim sem hæstarétt skipa í stóru löndunum“. Það sjónarmið sem var þó helst nefnt á móti stofnun íslensks Hæstaréttar var smæð þjóðfélagsins. Íslendingar væru einfaldlega of fáir til til að dómendur gætu orðið nógu óháðir mönnum og málefnum. Hlutleysi réttarins yrði ekki tryggt.

„Guði sé lof að til er Hæstiréttur“ er gamalt orðatiltæki frá því áður en Ísland varð fullvalda ríki. Hæstiréttur Dana var þá enn æðsti dómstóll landsins og hafði verið frá árinu 1660. Mikil sátt virðist hafa ríkt hér á landi um dóma Hæstaréttar í Kaupmannahöfn. Þar sátu fimm óhlutdrægir dómarar. Hæstiréttur Dana hafði notið hylli landsmanna sem ágætur dómstóll. „Lærdómur og réttsýni dómenda hans var óvéfengt,“ eins og Bjarni Benediktsson, þá prófessor í stjórnskipunarrétti og síðar forsætisráðherra, orðaði það í grein árið 1938.

Vitaskuld var þetta dýrt í framkvæmd, þýða þurfti lög, reglugerðir og lögskýringargögn, en á árunum 1910–1919 var þó innan við 4 prósent dóma Landsyfirréttar skotið til Hæstaréttar í Kaupmannahöfn. Því má velta upp hvort það hefði ekki orðið farsælla fyrir þróun íslenskrar lögfræði sem fræðigreinar ef Hæstiréttur í Kaupmannahöfn hefði áfram verið æðsti dómstóll ríkisins. Alltént hefði hún þar með orðið í betri tengslum við stefnur og strauma á meginlandi Evrópu. Hér má einnig nefna að það er ekki hugtaksskilyrði fyrir fullveldi ríkja að æðsti dómstóll viðkomandi ríkis sé staðsettur innan lögsögu þess og ýmis dæmi í okkar samtíma um að ríki kjósi að hafa æðsta dómstól í öðru landi.

Þetta leiðir líka hugann að því að margir af helstu forystumönnum þjóðarinnar í byrjun tuttugustu aldar voru mjög alþjóðlega sinnaðir, enda voru þeir sumir hverjir hámenntaðir og höfðu lengi dvalist á meginlandinu. Í þeirra huga skyldi frjálst og fullvalda Ísland verða ríki meðal ríkja, það væri órjúfanlegur hluti Evrópu og evrópskrar menningar. Því miður einangraðist Ísland á þeim áratugum sem í hönd fóru. Kannski réðu peningamálin mestu þar um, en því má sannarlega velta upp hvort ekki hefði verið heillavænlegra fyrir íslenska réttarþróun hefði æðsti dómstóll í íslenskum málum áfram verið í Kaupmannahöfn.