Guðbjörg: „við erum að flýja barnaníðing og eltihrelli sem hefur ofsótt okkur og börnin síðustu árin“

„Það eru einkum þrjár ástæður fyrir að við erum að flytja til Spánar. Í fyrsta lagi er maturinn þar 80 prósent ódýrari en hér. Ef Ingi væri ekki með byssu pabba síns og færi á skytterí, ef hann fengi ekki fara á skak með vini sínum til að fiska í soðið og ef hann væri ekki bæði nýtinn kokkur og klár í að búa til góðan mat úr litlu; þá gætum við ekki gefið börnunum okkar að borða, ekki þegar liðið er á mánuðinn. Örorkubæturnar duga ekki fyrir framfærslu. Ef við hefðum ekki gæs og fisk í frystinum myndum við svelta síðustu daga hvers mánaðar.“

Svona hefst huldufólkssaga úr nútímanum um Inga Karl Sigríðarson og Guðbjörgu Sigurlaugu Gunnlaugsdóttur. Saga þeirra er sögð á Facebook síðunni: Við erum hér líka. Hefur fjöldskyldan ákveðið að flytja til ákveðið að flytja til Spánar þar sem þau segja að erfitt sé fyrir stóra fjöldskyldu sem lifir á öryrkjabótum hér á Íslandi. Ingi og Guðbjörg eru bæði öryrkjar og eiga þau samtals sex börn, frá átta til átján ára. Ingi á þrjú og Guðbjörg önnur þrjú. Þau eiga ekki börn saman, kynntust þegar börnin sex voru komin í heiminn. 

„Í öðru lagi erum við að flýja húsnæðiskreppuna á Akureyri. Við fáum ekki nógu stóra íbúð fyrir okkur öll, enga sem við höfum efni á. Við erum sex í heimili og átta þegar yngri börnin hans Inga koma til Íslands. Við búum í tveimur litlum íbúðum í dag, komust ekki fyrir í annarri og getum eiginlega ekki búið svona lengur. Hvernig á fjölskylda að búa í tveimur íbúðum? Við erum á biðlista eftir stærri íbúð, en gætum verið þar endalaust. Ég held að það sé engin íbúð í félagslega kerfinu á Akureyri sem er nógu stór fyrir sex til átta manna fjölskyldu. Svo er of dýrt fyrir okkur að fá yngri börnin frá Noregi. Það kostar meira um 140 þúsund krónur að fá þau í heimsókn, jafnvel þótt við fáum lánaðan bíl til að sækja þau suður til Keflavíkur. Þegar við erum flutt til Spánar geta þau komið til okkar fyrir fimmtíu þúsund krónur. Og búið með okkur í einbýlishúsinu. Við leigjum hús með mörgum svefnherbergjum, þremur baðherbergjum og með húsgögnum fyrir sama verð og við borgum fyrir aðra íbúðina hér á Akureyri.“

Aðspurð hvort flugið frá Noregi sé síðasta af þeim mörgu ástæðum sé að flytja með fjölskylduna segja Ingi og Guðbjörg að svo sé ekki. Einnig séu þau að flýja barnsfaðir Guðbjargar.

„Nei, ég skaut flugfarinu bara inn. Þriðja ástæðan er að við erum að flýja barnaníðing og eltihrelli sem hefur ofsótt okkur og börnin síðustu árin. Þetta er barnsfaðir Guggu, faðir tveggja yngri barnanna. Eftir margra ára baráttu vann Gugga loks forræðismálið í sumar. En það stoppar hann ekki. Hann situr um okkur. Einu sinni kom til mín handrukkari sem sagði að maðurinn hefði borgað honum fyrir að berja mig svo ég lenti á spítala. Ég var heppinn að handrukkarinn þekkti mig og vildi ekki gera mér illt. En það er sama þótt við kærum svona eða látum vita, við fáum enga vernd. Við, og ekki síður börnin, erum í hættu hér á Akureyri. Þetta er dæmdur maður, hættulegur maður. Þess vegna erum við að flýja, til að losna frá honum. En síðan vill svo til að við getum líka átt betra líf á Spáni, búið betur, búið öll saman, borðað betur. Búið börnum okkar heimili. Tryggt þeim öryggi og frið. Það getum við ekki hér, ekki sjens.“

Lesa má alla sögu þeirra á Facebook síðunni Við erum hér líka.