Gríðarmagn af kannabis fannst í gámi

Miklu magni af restum af kannabisframleiðslu var komið fyrir í nokkrum ruslapokum í bylgjupappagámi hjá Gámaþjónustu Norðurlands á Akureyri í gær. Lögreglu var gert viðvart en hún telur ekki rekjanlegt hvaðan efnið kemur.
Líkur benda til að stórfelld kannabisframleiðsla hafi átt sér stað. Frímann Stefánsson, stöðvarstjóri hjá Gámaþjónustu Norðurlands, segir í samtali við Hringbraut að þetta hafi verið óskemmtileg sending.
Akureyri er það bæjarfélag landsins sem er lengst komið í flokkun. Í léttum dúr nefnir Frímann að það sé grundvallaratriði að þeir sem stundi kannabisframleiðslu skili sorpinu af sér í rétta gáma.  Frímann vill koma þeim ábendingum til kannbisframleiðenda að stilkarnir og afskurðirnir ættu að fara í lífræna poka. Kassar undan hönskum og plastpokum fari í pappagám. Gúmmíhanskar og loftræstirör í almennt sorp og plast í plastgám.
Þar sem lögregla telji efnin ekki rekjanleg geti hann ekki kvartað beint til framleiðenda!