Greina þarf stéttskiptingu í skólum

Það er ýmislegt sem bendir til þess að ójöfnuður hafi aukist í grunnskólum á Íslandi. Þeirri óheillaþróun þarf að taka alvarlega og bregðast skjótt og vel við. Það gerist ekki sjálfkrafa. Þetta segir Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á menntavísindasviði Háskóla Íslands í viðtali við Margréti Martetinsdóttir í þættinum 21 í gærkvöldi. Hún og Auður Magndís Auðardóttir, doktorsnemi hafa í rannsóknum sínum beint sjónum að grunnskólum og athugað sérstaklega hvort þar sé að finna efnahagslegan ójöfnuð og þá stéttaskiptingu sem oft er fylgifiskur hans.

Berglind segir að enn séu flestir skólar mjög blandaðir en ýmis teikn séu á lofti að það hafi verið að breytast síðustu 20 ár. Þannig sé að finna skóla þar sem um helmingur barna komi frá mjög ríkum heimilum og annan þar sem mikill meirihluti barna býr við krefjandi fjárhagslegar og félagslegar aðstæður. Ýmislegt bendi til að þróunin sé frekar í þessa átt og ef ekkert verði að gert séum við að búa til tvær þjóðir í landinu. Berglind leggur áherslu á að ekki sé nóg að safna gögnum og greina þau því þeim verði að fylgja aðgerðaráætlun til að bregðast við.