Alinn upp á flakki fjölskyldunnar

Tónlistarmaðurinn KK í einlægu viðtali í Mannamáli í gærkvöld:

Alinn upp á flakki fjölskyldunnar

Það skortir ekki einlægnina þegar einn dáðasti tónlistarmaður þjóðarinnar, KK leggur spilin á borðið fyrir framan Sigmund Erni í samtalsþættinum Mannmáli á Hringbraut sem frumsýndur var í gærkvöld en þar rifjar hann upp ótrúlega litskrúðugan lífsferil sinn.

Hann er alinn upp í Bandaríkjunum, á merkilegu flakki foreldra sinna frá miðríkjunum út að vesturströndinni þar sem KK naut návista við einstaklega frjálslynda foreldra sína sem höfðu mikil og góð áhrif á persónugerð allra barna sinna.

Hann kom heim á ellefta ári, um líkt og hann fékk fyrsta gítarinn að gjöf frá mömmu sinni, en hann var útlendingur í eigin landi, að honum fannst - og fór utan um tvítugt með kærustunni sinni og lífsförunaut og þau létu bara vindinn ráða för.

Það var í Skandinavíu sem listferillinn hófst að ráði, einkum og sér í lagi götusppilamennskan sem herti hann og mótaði sem alþýðulistamann - og að hætti KK, sem hefur aldrei lifað í excel-skjali var flengst um allar grundir Evrópu um árabil.

Hann kom ekki heim fyrr en vel var liðið á fertugsaldurinn - og gaf út plötu, búmm; Íslendingar elskuðu hann frá fyrsta tóni og lögin á plötunni, svo og þeim næstu sem fylgdu í kjölfarið urðu að þjóðlagaperlum á vörum landsmanna.

Hann segir þessa sögu sína af einlægni og því dásamlega hispursleysi sem einkennt hefur KK alla tíð, mannsins sem ætlaði sér ekkert endilega að setjast að í átthögunum heima á Íslandi, en tókst það að lokum eftir ævintyralegan uppvöxt og þroska.

Mannamál eru frumsýnd öll fimmtudagskvöld og endursýnd í dag en eru einnig aðgengileg á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

 

Nýjast