Gömlu hringbraut lokað á föstudag

Frá og með 8. febrúar verður Gömlu Hringbraut lokað vegna jarðvegsframkvæmda við byggingu nýs meðferðarkjarna Landspítala, sem er einn verkhluti hins svokallaða Hringbrautarverkefnis. Áætlað er að byggingu nýs meðferðarkjarna muni ljúka árið 2024. Þetta kemur fram í tilkynningu frá NLSH ohf., verktaka verkefnisins.

„Dagurinn 8. febrúar markar viss tímamót í uppbyggingu nýs meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut. Mikilvægt er að almenningur kynni sér vel þær breytingar sem verða á akstri bæði einkabíla og strætisvagna um svæðið í nálægð við Landspítala.  Nauðsynlegt er að virða þær merkingar sem komið verður upp tengt þessari stóru framkvæmd og þær hjáleiðir sem munu verða sökum lokunarinnar,“ segir Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri Hringbrautarverkefnisins.

Á heimasíðu Strætó er hægt að kynna sér allar upplýsingar um breytingar á akstri strætó ásamt nýjum leiðakortum og myndbandi um helstu breytingar sem stafa af þessari framkvæmd.

Framkvæmdirnar hafa einnig mikil áhrif á gönguleiðir og hægt er að kynna sér breytingar á þeim hér.

„Við hjá NLSH þökkum fyrir þolinmæði vegfarenda, sjúklinga, starfsmanna Landspítala og þeirra sem leið eiga um framkvæmdasvæðið. Framkvæmdir  hafa gengið vel og í vetur mun meginþungi framkvæmda vera í mikilli nálægð við starfsemi Landspítala en eftir þvi sem verkinu miðar áfram þá mun framkvæmdaþunginn færast fjær starfseminni,“ segir Ásbjörn einnig.