Góður dagur í dag

Kosningadagurinn er góður dagur fyrir alla sem láta sig lýðræðið varða. Munum að í sumum ríkjum þarf ekki að kjósa. Þar ráða einræðisherrar ríkjum.
Ekki viljum við skipta á því. Við eigum að þakka fyrir lýðræðið með því að nýta kosningaréttinn.

Svo er dagurinn í dag einnig góður fyrir Dag borgarstjóra sem verður endurkjörinn borgarstjóri í dag.

Í sjónvarpsumræðunum í gær kom glöggt fram hve mikill yfirburðamaður Dagur er þegar kemur að borgarmálum. Allar tilraunir til að sækja að honum runnu jafnharðan út í sandinn. Einkum var raunarlegt að sjá hve slakur Eyþór var. Hann verður aldrei borgarstjóri í Reykjavík; Selfoss verður að duga honum.

Athygli vakti hve vel ungu konurnar frá Pírötum og Viðreisn komu frá sjónvarpskappræðunum. Leiðtogi Sósíalistaflokksins átti góða spretti. Það var afrek hjá henni að þykjast lítið vita af Gunnari Smára Egilssyni, Guðföður og hugmyndasmið flokksins.
Ef einhver er flokkseigandi þá er það hann!

Eftir helgina verður myndaður meirihluti í Reykjavík leiddur af Samfylkingunni í samstarfi við Pírata, Viðreisn og VG. 

Dagur verður áfram borgarstjóri. Gott að hafa stöðugleika í einhverju. Til samanburðar má nefna að á síðustu 25 mánuðum höfum við haft 4 - fjóra- forsætisráðherra á Íslandi!

Kosningadagurinn er góður fyrir lýðræðið. Þökkum fyrir það með því að nýta kosningaréttinn.

Rtá.