Góða fólkið og fíllinn í stofunni

Samkvæmt gjaldahlið fjárlagafrumvarps 2018 kemur fram að ríkisútgjöld nemi 818 ma.kr. Stærsti hluti ríkisútgjalda fer til heilbrigðismála 209 ma.kr. eða 26% annars vegar og hins vegar félags, húsnæði- og tryggingarmála 211 ma.kr. eða 26%. Útgjöld til mennta- og menningarmála eru áætluð 99 ma.kr. eða 12%. Þessir þrír málaflokkar nema því 64% af heildarríkisútgjöldum. Ríkisútgjöld hafa aukist um 170 milljarða á sjö árum og virðast aukast stjórnlaust án nokkurrar hagræðingar eða aukinnar framleiðni. Þjónustustig og árangur í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu hefur á sama tíma aldrei verið minni. Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hafa tvöfaldast á síðustu tíu árum og nema nú um 800 ma.kr. Lífeyrisskuldbindingar hins opinberra hafa aukist með miklum hraða vegna hækkunar á launum opinberra starfsmanna sem hafa hækkað um rúm 90% frá árinu 2007. Fíllinn í stofunni er ríkissjóður og embættismannakerfið sem hefur á undanförnum sjö árum ekki notað tækifærið til að greiða niður lífeyrisskuldbindingar eða hagrætt og aukið framleiðni í sínum rekstri. Það er með hreinum ólíkindum hvernig Alþingi Íslendinga er haldið í heljargreipum óvenjumargra slakra alþingismanna sem virðast eiga erfitt með að vinna með uppbyggilegum hætti. Mestur tími fer í málþóf, útúrsnúninga og lýðskrum fyrrgreindra þingmanna og er til há- borinnar skammar fyrir land og þjóð. Mikilvæg mál komast ekki á dagskrá og kostnaður samfélagsins sökum þess að miklar tafir verða á öðrum mikilvægum málum. Sjálfskipaður hópur fólks sem gengur undir nafninu „góða fólkið“ hefur það helst unnið sér til frægðar að segja okkur hinum hvernig eigi að lifa lífinu, hvað sé pólitískt rétt og hvað orðið lýðræði stendur fyrir. Á sama tíma hefur það oft á tíðum verið á framfæri ríkissjóðs með einum eða öðrum hætti, sumir alla ævi og ekki þurft að takast á við alvörusamkeppni á einkamarkaði. Það hefur samt sterkar skoðanir á framúrskarandi íslenskum fyrirtækjum sem hafa komist í fremstu röð á alþjóðlegum mörkuðum og eru á heimsmælikvarða hvað rekstur snertir. Þessi íslensku alþjóðlegu fyrirtæki eru t.a.m. Samherji, Marel og Össur sem gætu örugglega tekið marga alþingismenn og opinbera starfsmenn í smá kennslustund í rekstri og hvernig á að ná árangri. Það gæti verið góð tilbreyting að bjóða íslenska embættismannakerfinu upp á námskeið í rekstri fyrirtækja og stofnana í boði þessara frábæru fyrirtækja sem hafa oft þurft að sitja undir gagnrýni „góða fólksins.“ Getur ríkissjóður lært eitthvað af bestu fyrirtækjum landsins í fjármálastjórnun og rekstri? Það sem er sammerkt með bestu fyrirtækjum á Íslandi er að þau hófu starfsemi sína fyrir um 40 árum og hafa stöðugt bætt rekstur sinn og verið með skarpa framtíð- arsýn í sínum rekstri og eru núna öll í forystu á sínu sviði á alþjóð- legum mörkuðum. Samherji er íslenskt alþjóðlegt fyrirtæki í fremstu röð og leitun að slíku fyrirtæki á heimsvísu sem hefur sýnt slíka framúrskarandi forystu og rekstrarhæfni í áhætturekstri en eigendur og stjórnendur hafa verið stöð- ugt á tánum og sýnt fádæma útsjónarsemi í sínum rekstri. Stjórnendur Samherja þurfa að vera stöðugt á tánum þar sem miklir fjármunir eru bundnir í fastafjármunum og mikil óvissa er í fiskveiðum auk þess sem sveiflur geta verið miklar í fiskverði. Óvissuþættir í rekstri sjávarútvegsfyrirtækis eru fjölmargir og ekki fyrir alla að stýra slíkum áhætturekstri af myndarskap eins og Samherji hefur gert síðustu 30 árin enda fyrirtækin vaxið mikið og bætt rekstur sinn verulega. Íslensk alþjóðleg fyrirtæki sem hafa náð langt á alþjóðlegum mörkuðum eru t.a.m. Marel og Össur. Marel varð til í umhverfi sjávarútvegsfyrirtækja, afburða járnsmiða og verkfræðinga en framsýnir og framúrskarandi stjórnendur hafa síðan komið Marel í fremstu röð á heimsvísu. Össur er stoðtækjafyrirtæki sem hefur komist í fremstu röð með framúrskarandi vöruþróun og stjórnendum. Ríkissjóður Íslands með íslenska embættismannakerfið í heilbrigðisráðuneytinu, velferð- arráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu gæti örugglega aukið færni sína og árangur mikið með því að kynna sér framúrskarandi rekstur þessara fyrirtækja en 64% af ríkisútgjöldum sem eru 524 ma.kr. fara í gegnum þessi þrjú útgjaldamestu ráðuneyti. Innleiða þarf nýja hugsun og byrja hagræð- inguna strax. Ríkiskerfinu virðist vera haldið í gíslingu og heljargreipum embættismanna sem hindra ákvarðanir til að ná árangri. Á erlendum mörkuðum er oft talað um að hægt sé að verð- meta fyrirtæki í öfugu hlutfalli við stærð höfuðstöðva, því stærri höfuðstöðvar því meiri hnignun sem hindrar mikilvægar ákvarðanir. Hvenær byrjar hagræðingin hjá ríkissjóði og stofnunum ríkisins? „Það kemur yfirleitt ekki í ljós hverjir eru naktir á ströndinni fyrr en fjarar út,“ segir Warren Buffet frægasti fjárfestir heims. Vonandi verður það ekki hlutskipti ríkissjóðs Íslands. Það hljóta margir að velta fyrir sér hvenær byrjað verð- ur á hagræðingu í rekstri ríkisins en krafa almennings og skattgreið- enda er að stjórnlaus aukning ríkisútgjalda stöðvist og hagræðing og virðisauki í þjónustustigi ríkisins aukist. Auka þarf möguleika einkarekinna rekstrarforma til að veita verðuga samkeppni á sem flestum sviðum en þannig má bæta þjónustustig og verðmætasköpun horft til framtíðar. Einnig þarf að greiða niður skuldir og lífeyrisskuldbindingar sem hækka stjórnlaust þrátt fyrir fullnýtta skattstofna og þá staðreynd að Ísland er á toppi hagsveiflunnar.

Eftir Albert Þór Jónsson. Höfundur er viðskiptafræðingur, MCF í fjármálum fyrirtækja með 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði.