Gisting á góðu hóteli á 5800 krónur!

Það er lagst í víking í þættinum Ferðalagið á Hringbraut í kvöld, en þar tekur Sigmundur Ernir sér ferð á hendur til borgarinnar Wroslaw á bökkum Oder-árinnar í vesturhluta Póllands.

Borgin er með þeim elstu í miðju Evrópu og hefur löngum þótt standa á krossgötum austurs og vesturs og þá ekki síður norðurs og suðurs, en hún hefur um aldir verið undir yfirráðum Mongóla, Rússa, Prússa, Tékka, Ungverja, Austurríkismanna, Frakka og lengst af Þjóðverja, eða allt fram að lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Og þar er ódýrt að sækja þessa miklu menningarborg heim, flugið með ungverska félaginu WizzAir kostar innan við tuttugu þúsund krónur, en félagið hefur hafið beint flug á milli Íslands og Wroslaw - og gott herbergi á vönduðu hóteli í miðborginni, á besta stað, kostar 5800 krónur.

Og þá er bjórvísitalan ölkæru fólki í hag, en stór krús kostar að jafnaði vel innan við 300 krónur, jafnvel allt niður undir 120 krónur.

Í þættinum í kvöld er einnig farið norður í Hvítahaf þar sem gúlagið sovéska var að finna á fyrri tíð, en sögumaður er Helgi Sigfússon sem fór þangað við annan mann á síðasta ári.

Ferðalagið byrjar klukkan 20:00 í kvöld.