Gísli Marteinn harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðuna í Eurovison: Segir Gísla hafa gert í buxurnar – Taktu þátt í Könnun

Gísli Marteinn harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðuna í Eurovison: Segir Gísla hafa gert í buxurnar – Taktu þátt í Könnun

Gísli Marteinn Baldursson var þulur í útsendingu RÚV frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í gærkvöldi. Gísli tók við af Felix Bergssyni sem hafði kynnt keppnina síðustu þrjú ár. Gísli Marteinn var líka þulur í keppninni á árunum 2003-2005. Gísli var valinn besti íslenski þulurinn í óformlegri kosningu meðal félaga í FÁSES, íslenskum aðdáendaklúbbi Söngvakeppninnar og skal tekið fram að Gísli Marteinn fær líka sinn skerf af hóli.

Á samskiptamiðlum var Gísli Marteinn gagnrýndur af nokkuð stórum hópi fyrir frammistöðuna í gærkvöldi. Sveinn Hjörtur Guðfinnsson segir á Facebook að ef marka megi ótal færslur á Facebook sé ljóst að Gísli Marteinn hafi ekki átt sinn besta dag. Sveinn Hjörtur segir:

„Ljóst að Gísli Marteinn Baldursson hafi gert í buxurnar í starfi sínu sem kynnir keppninnar í gærkvöldi. Athugasemdir í garð keppenda og mislukkaðir brandarar hans og leiðinda athugasemdir, ásamt niðurlægjandi tali um ákveðna hópa virtust hafa fengið allmarga til að skipta yfir á aðrar stöðvar eða hreinlega að lýsa óánægju sinni. Sumt af því fólki lætur aldrei slíkt í ljós og því er örugglega til í því að Gísli Marteinn hafi farið yfir strikið!“

Þá má finna ótal innlegg bæði á Twitter og Facebook þar sem Gísli Marteinn fær sinn skerf af gagnrýni og dæmi um að minnst einn einstaklingur hafi haft samband upp í RÚV til að kvarta. Er helst gagnrýnt að Gísli hafi dæmt bæði lög og flytjendur of harkalega. Freyr Ingason segir: „Eldist kannski ekki í útliti en mikið djöfull er kallinn orðinn þreyttur“

Gísli hefur áður komið sér í klandur fyrir athugasemdir um keppendur. Ein slík var athugasemd hans um einn af kynnum keppninnar, þegar hann spurði hvort  kjóll hennar væri ekki óvenjulega fleginn. Var hann gagnrýndur af femínistum fyrir þau ummæli.

En þegar samskiptamiðlarnir eru skoðaðir kemur einnig í ljós að Gísli Marteinn fær mikið hrós og er sagður ómissandi kynnir. Er það upplifun blaðamanns að í raun fái Gísli meira hrós en last fyrir frammistöðuna í gærkvöldi. En til að fá úr þessu skorið efnir Hringbraut til könnunar þar sem lesendum gefst kostur á að dæma Gísla fyrir frammistöðuna. Er viðeigandi að gefa lesendum kost á að gefa Gísla Marteini einkunn frá 1 og upp í 12 stig.

Hér fyrir neðan getur þú tekið þátt í könnun:

 

Nýjast