Gísli marteinn: „blakkát gunnars braga entist lengur en þetta“ - gísli fær lof og skammir

Gísli Marteinn Baldursson heldur áfram að valda usla sem þulur RÚV frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Eftir fyrra kvöld keppninnar fékk Gísli Marteinn mikið lof en var einnig talsvert gagnrýndur fyrir frammistöðu sína.

DV greinir frá því að umdeildustu ummæli hans í kvöld féllu áður en söngkonan Anna Odobescu frá Moldóvu steig á svið með lagið Stay. Lagið fjallar um heimilisofbeldi og söngkonan var klædd brúðkaupskjól á sviðinu. Gísli Marteinn lét þá þessi ummæli falla:

„Virðist hafa vera mjög stutt hjónaband. Blakkát Gunnars Braga entist lengur en þetta.”

Var Gísli þarna að vísa til þess þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins sagði nokkrum dögum síðar að hann myndi ekkert hvað hefði átt sér stað á Klausturbar kvöldið fræga. Við það tilefni sagði Gunnar Bragi við Hringbraut:

 „Það sem situr einna verst í mér eftir þetta kvöld er í fyrsta lagi það að muna ekki neitt frá þeim tíma þegar ég kem inn á barinn og þar til einum og hálfum sólarhring síðar. Ég ekki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upptökurnar. Ég týndi fötunum mínum þessa nótt. Það er algjört „blakkát,“ algjört minnisleysi.“

DV greindi svo frá því og birti upptöku þess til sönnunar að Gunnar Bragi sagði sama kvöld og fyrstu fréttir voru birtar upp úr upptökunum að hann mundi eftir kvöldinu. Gunnar Bragi sagði í samtali við DV: „Ég man bara að það flaug allur fjandinn þarna en þetta var mjög skemmtilegt hins vegar.“

Eftir að Gísli Marteinn lét ummælin falla við lýsingu á Eurovision máttu sjá fjölmarga fjalla um þau á Twitter. Er Gísli Marteinn bæði gagnrýndur og hrósað fyrir ummælin um Gunnar Braga.

Jón Axel Ólafsson segir: „Gísli toppar sig með hverjum deginum. Gísli rokkar,“ á meðan Sigga Magnúsdóttir segir: Með því ómerkilegasta sem ég hef heyrt frá Gísla og það segir eitthvað. Ömurlegt.“

Hringbraut.is hefur staðið fyrir könnun um frammistöðu Gísla eftir fyrra kvöld keppninnar. Tæplega 2500 manns hafa kosið. 22 prósent telja að Gísli Marteinn hafi staðið sig ömurlega á meðan 50 prósent eru afar ánægð með hans frammistöðu.