Gísli jarðsettur í dag – „Þarna fór maður með hjarta úr gulli“

Gísli jarðsettur í dag – „Þarna fór maður með hjarta úr gulli“

Útför Gísla Þórs Þórarinssonar, sem lést í Mehamn í Noregi þann 27. apríl, fer fram í dag frá Ytri-Njarðvíkurkirkju. Gísli lést eftir að hafa verið skotinn í lærið af Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, hálfbróður sínum. Gunnar Jóhann játaði að hafa orðið honum að bana en segir að um hræðilegt slys hafi verið að ræða.

Falleg minningarorð um Gísla Þór er að finna í Morgunblaðinu í dag. Gísla varð ekki sjálfum barna auðið en tekið er fram að sjö systkini Gísla eigi samtals 13 börn, sem hafi verið honum mjög kær.

„Þetta fallega bros. Þessi fallegu augu. Þetta fallega hjarta. Þetta er það fyrsta sem kemur upp í huga mér þegar ég hugsa um þig, elsku Gísli minn. Þú varst hvers manns hugljúfi og það vita það allir sem voru svo heppnir að fá að kynnast þér að þarna fór maður með hjarta úr gulli,“

skrifar Inga Ósk Ólafsdóttir.

Inga segir að Gísli Þór hafi komið í líf hennar aðeins 12 ára gamall og hafi frá því alltaf átt stað í hjarta hennar. Drengjum hennar hafi Gísli alltaf verið góður, þeir hafi litið uppi til hans, enda Gísli einstakur. „Elsku Gísli minn, nú ert þú kominn í sumarlandið og veit ég að þar verður tekið vel á móti þér,“ skrifar hún einnig.

Gissur Hans Þórðarson, hálfbróðir Gísla, tekur í sama streng og vitnar í fallegt ljóð Ingibjargar Sigurðardóttur, sem hljóðar svo:

„Þitt hjarta geymdi gullið dýra og sanna,
að gleðja og hjálpa stærst þín unun var.
Því hlaust þú hylli Guðs og góðra manna
og göfugt líf þitt fagran ávöxt bar.

Ég blessa nafn þitt blítt í sál mér geymi,
og bæn til Guðs mín hjartans kveðja er.
Hann leiði þig í ljóssins
friðarheimi,
svo lífið eilíft brosi móti þér.“

Sigurþór Charles Guðmundsson, frændi Gísla, ver nokkrum orðum um hve lífsglaður Gísli hafi verið: „Við eigum að njóta hverrar stundar og vera meðvituð um að augnablikið er svo dýrmætt því það fýkur framhjá eins og ekkert sé og eftir situr minningin. Frændi minn hann Gísli Þór hefur nú verið tekinn frá okkur úr þessu lífi í einni hendingu. Þessi ungi lífsglaði maður sem geislaði svo af þannig að eftir var tekið.“

Hann lýsir einnig persónutöfrum og áræðni Gísla.

„Af honum geislaði þegar hann lýsti fyrir mér þeim aðstæðum sem eru í Norður-Noregi. Ég sá hvað þessi drengur hafði mikla persónutöfra og var einarður um að koma sér áfram þrátt fyrir erfiðar aðstæður.“

Nýjast