Getur erlend grýla komið og hirt af okkur landsvirkjun?

Fyrst þetta: Sjálfstæði og velferð fæst ekki án efnahagslegs styrks, efnahagslegs sjálfstæðis, og efnahagslegt sjálfstæði fæst ekki án fullrar þátttöku í alþjóðasamstarfi og fullri nýtingu alþjóðlegra tækifæra og markaða;

Sjálfstæði og velferð án efnahagslegs sjálfstæðis er ekki til. Gott dæmi um þetta er Kúba og Venesúela. Einangrunarstefna er banvæn.

Sumir hér eru svo þröngsýnir og íhaldssamir, að þeir sjá skrattann málaðan á vegginn, ef horft er út fyrir landsteina, svo ekki sé nú talað um, að gengið sé til frjálslegrar samvinnu, samstarfs og tengsla við erlenda aðila, þjóðir og ríkjasambönd, sem þó er fyrsta skilyrði framfara.

Sem betur fer er verulegur hluti þjóðarinnar, mikill meirihluti hennar, frjálslyndur og framfarasinnaður og með víðan sjóndeildarhring og skilning.

Má þakka þessum hluta þjóðarinnar þær miklu framfarir og þá upprisu frá hruninu, sem orðið hefur.

Þetta fólk skilur að ný samskipta- og samgöngutækni hefur fært menn og þjóðir nær hverjum öðrum, og, að jörðin – a.m.k. Evrópa fyrir okkur - er orðin einn vettvangur, sem menn verða að deila með sér og vinna á saman.

Upp á síðkastið hafa afdalamenn landsins, einangrunarsinnarnir, stigið fram með háreysti og gífuryrðum; nú er hættan 3. orkupakkinn.

Ég spyr mig bara: Er þetta blessaða háværa og stóryrta fólk ekki með öllum mjalla!? Heldur einhver, að einhver erlend grýla komi hingað bara og hirði af okkur orkufyrirtæki, lönd og auðlindir landsins – kaupi og yfirtaki íslenzk fyrirtæki og íslenzkar eignir, gegn vilja eigenda, eða þá - verður maður að ímynda sér - hirði slíkar eignir heimamanna af þeim með eignarnámi eða öðrum kúnstum, hvernig svo sem þetta ætti að vera – ef við staðfestum vilja okkar til að stíga inn á frjálsan orkumarkað ESB, ef okkur hentar og þegar okkur hentar.

Staðfesting pakkans er í raun ekki nema viljayfirlýsing um þáttöku, með skýrum fyrirvara, því til þátttöku á þessum markaði þyrfti sæstreng til Evrópu, sem Alþingi yrði sérstaklega að samþykkja lagningu á.

Við erum nú þegar inni á frjálsum evrópskum markaði, þar sem við getum fjárfest í fyrirtækjum, fasteignum og öðrum eignum á meginlandinu, á sama hátt og íbúar ESB ríkjanna geta fjárfest hér.

Þetta gildir á nær öllum sviðum, en, til að aðrir Evrópubúar geti keypt hér eignir, þarf auðvitað vilji íslenzkra eigenda til að selja að vera til staðar, og, þegar kemur að orkufyrirtækjum og tengdum auðlindum, eru þau flest í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Svo, hvernig ættu útlendingar að vaða í þessar eignir og hirða þær? Þessar landsafsals- og yfirtöku kenningar eru þó aldeilis ævintýralegar. Voru menn eitthvað á ferð í Hollywood, eða, öllu fremur, Bollywood, nýlega?

Hitt er annað mál, og það væri við hæfi, að við leituðum svipaðra leiða og lausna og Danir gerðu og fengu framgent til að stjórna og takmarka, ef þurfa þætti,  kaupum annarra Evrópubúa á íslenzku landi og þar með auðlindum landsins.

Í 25 ár höfum við verið á innri markaði ESB, stærsta markaði heims, með framleiðsluvörur okkar og þjónustu. Þetta hefur tryggt okkur bezta mögulega verð fyrir afurðir okkar, á sama hátt og við höfum haft fullan aðgang að því vöruframboði annarra þjóða, sem innri markaður ESB býður upp á - sennilega því bezta í heimi.

Vatns- og hveraorka er auðvitað eins og hver annar söluvarningur, sem gengið getur kaupum og sölu, á grundvelli framboðs, eftirspurnar og markaðsverðs, neytendum til góðs, og má líkja henni við viðskipti með olíu, kol, sólarorku eða kjarnorku.

Gildir það sama um orku landsmanna og hátæknivörur, flutningsþjónustu, ál- og fisksölu og aðrar afurðir. Hér ræður opinn og frjáls markaður 31 þjóðar.

Ef gæði eru mikil og kostnaður lágur, höfum við allt að vinna og litlu að tapa með því að fara inn á stóran og öflugan markað, auk þess sem slíkur markaður veitir okkur sjálfum aðhald og örvun.

Til viðbótar kemur, að 30 aðrar evrópskar þjóður, líka frændur okkar, Norðmenn, Svíar, Danir og Finnar, hafa samþykkt þennan orkupakka og sjá sér hag í honum.

Enginn vill hér afsala sér forræði og sjálfstæði, frekar en við. Skyldu frændur okkar ekki vita, hvað þeir eru að gera? Vantar þá kannske reifa og málglaða Klausturbarsfélaga sér til ráðgjafar?

Hundaeigendur þekkja þetta fyrirbrigði: Hundur byrjar að gjamma, oft af litlu tilefni. Misskilningur, misheyrn eða missýn. Hinir hundarnir taka svo allir undir, og gjammar hver í kapp við annan, án þess að nokkur viti eiginlega, út af hverju gjammað sé. Skyldi þetta eiga við um andstæðinga 3. orkupakkans?