„getum margt lært af norðmönnum“

„Samband Íslands og Noregs byggir á sterkum grunni. Í fyrra heimsótti ég Noreg og kynnti mér hvernig Norðmenn hafa mætt ýmsum áskorunum sem við erum að vinna með. Þeir hafa náð góðum árangri í að auka aðsókn í kennaranám þrátt fyrir lengingu námsins í fimm ár. Að sama skapi eiga þeir góðu gengi að fagna þegar kemur að iðn-, verk- og starfsnámi en hlutfall þeirra sem stunda slíkt nám er talsvert hærra í Noregi en hér á landi. Til þessa höfum við meðal annars horft til Noregs við mótun menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030, við getum margt lært af Norðmönnum,‘‘ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Jan Tore Sanner ráðherra menntamála og aðlögunar í Noregi fundaði með Lilju í gær. Sanner er staddur hér á landi í tengsl­um við fund sam­starfs­ráðherra Norður­landa sem fram fer í dag. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og stýrir Sigurður Ingi Jóhannsson fundinum, en hann gegnir embætti samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Íslands.

Á fundi sínum í gær ræddu Sanner og Lilja meðal annars áskoranir í menntamálum, þar á meðal stöðu barna af erlendum uppruna, áhrif tækni á skólastarf, stöðu drengja í skólakerfinu og skólasókn í framhaldsskólum. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi kennarastarfsins og ræddu stöðu kennara í löndunum tveimur. Þeir ræddu einnig mikilvægi norrænnar samvinnu og samstarfs í menntamálum, en það er vilji beggja auka slíkt samstarf.

Í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni er meðal annars sérstök áhersla lögð á ungt fólk og menntun. Meðal verkefna sem unnið er að á þeim vettvangi er verkefnið „Menntun fyrir alla“ sem miðar að því að Norðurlöndin verði í fararbroddi við innleiðingu á samnefndu heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið nær til allra skólastiga og lýtur að því að þjónusta og stuðningur við menntakerfi landanna verði í fremstu röð og að einstaklingar hafi tækifæri til fjölbreytts náms og starfa, án aðgreiningar. Aukinheldur verða á formennskuári Íslands haldnar ráðstefnur um málefni leikskóla á Norðurlöndum, gæði í háskólastarfi og stuðning við nýútskrifaða kennara.

Utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar fundaði með Guðlaugi Þór

Ann Linde, utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar, er líkt og Sanner stödd hér á landi í tengslum við fund samstarfsráðherra Norðurlanda í dag. Linde fer með Norðurlandamálin í sænsku ríkisstjórninni, auk utanríkisviðskipta. Þau Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra áttu fund í utanríkisráðuneytinu í gær þar sem norræn samvinna var m.a. til umfjöllunar ásamt útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, öryggismálum og alþjóðaviðskiptum.

„Norræna samvinnan skiptir Íslendinga afar miklu máli enda óumdeilt að vegna hennar hefur Ísland meiri slagkraft á alþjóðavísu en stærð okkar gefur til kynna,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson eftir fundinn. „Það er þess vegna ávallt tilefni til að efla tengslin við nánustu vinaþjóðir okkar, ekki síst nú þegar Ísland hefur tekið við formennskunni í norræna samstarfinu – af Svíum,“ segir Guðlaugur Þór.