Gerð kauptilboðs og næstu skref

Sjöfn Þórðar heldur áfram með heilræði fyrir fasteignakaupendur.

Að þessu sinni fer hún yfir hvað skal gera þegar þú hefur fengið endanlegt greiðslumat og vilyrði um lán og veist þar með hvað þú hefur í höndunum til fasteignakaupanna og ert reiðubúinn að leggja fram tilboð í eignina. Þú byrjar á að fara til fasteignasalans og kauptilboðið er gert í samráði við hann og með aðstoð hans.

Hvað áttu að bjóða háa upphæð?

Þegar þú gerir tilboð í eign skaltu vega og meta með hliðsjón af ásettu verði hversu mikils virði eignin er fyrir þig og fjölskyldu þína. Á eftir­sóttum stöðum á höfuðborgarsvæðinu seljast eignir oft yfir kostnaðar­verði en í öðrum tilfellum vel undir kostnaðar­- eða ásettu verði. Sjálfsagt er að bjóða 3-5% lægra verð í eignina en ásett verð en gerðu samt ráð fyrir í kostnaðaráætlun vegna kaupanna að þurfa að taka hærra gagn­tilboði frá seljanda ef þú ert staðráðin(n) í að fá eignina.

Láttu skynsemina ráða för

Almenna reglan er sú að tilboð gildir í einn eða tvo sólarhringa frá því að þú undirritar tilboðið og það er sent til seljanda. Þú getur fengið gagn­tilboð frá seljanda og færð þá einnig tilskilinn frest til að taka afstöðu til þess. Oft verður mikið um að vera á meðan á þessu stendur og hvað þá ef fleiri en þú eru að bjóða í eignina á sama tíma. Þá ríður á að þú missir aldrei sjónar á hvað þú ert tilbúin(n) að greiða háa fjárhæð fyrir eignina og freistist ekki til að bjóða hærra verð en þú ræður vel við.

Kauptilboð ígildi kaupsamnings

Ef seljandi samþykkir kauptilboð þitt eða þú samþykkir gagntilboð seljanda er komið á bindandi kauptilboð sem er ígildi kaupsamnings. Fasteignasalinn boðar þig þá til fundar með seljanda þar sem gengið er frá skriflegum kaupsamningi og hann er undirritaður. Fasteignasalinn sér um að þinglýsa kaupsamn­inginn og þú sem kaupandi greiðir stimpilgjaldið sem er 0,8 prósent af fast­eignamati, en 0,44 prósent ef um fyrstu kaup er að ræða.

Greiðslutilhögun

Oftast nær máttu gera ráð fyrir því að þú verðir að greiða kaupverð eignar að hluta við undirritun kaupsamnings og að fullu á þremur til fjórum mán­uðum frá undirritun hans.

Fyrirvari um fjármögnun

Ef þú hefur ekki fengið greiðslumat og þar með vilyrði um lán og veist þess vegna ekki hversu hátt lán þú færð til fasteignakaupanna er hægt að setja svonefndan „fyrirvara um fjármögnun“ inn í kaupsamninginn. Fyrirvarinn gildir til dæmis í þrjár vikur eða einn mánuð. Kaupsamningurinn fellur úr gildi eftir þann tíma ef þú hefur þá ekki fengið vilyrði um lán til kaupanna frá banka, lífeyrissjóði eða annarri lánastofnun.

Betra að fara í greiðslumat áður en tilboð er gert

Seljendur eru oft hikandi að taka tilboði með fyrirvara um fjármögnun, jafnvel þó að þú sért eini tilboðsgjafinn. Ef fleiri bjóða í eignina eru mestar líkur á að seljandi taki tilboði þar sem ekki er gerður fyrirvari um fjármögnun. Þess vegna er í flestum tilfellum betra að hafa fengið endanlegt greiðslumat áður en þú gerir tilboð í íbúð.

Afsal og afhending

Í kaupsamningi er tilgreint hvenær lokagreiðsla skuli innt af hendi og afsal gefið út. Þá hittist þið seljandinn aftur hjá fasteignasalanum. Á þeim fundi er gengið frá lokagreiðslunni og uppgjöri vegna fasteignaskiptanna. Í framhaldi af því gefur seljandi út afsal til þín fyrir eigninni. Fast­eigna­salinn sér um að láta þinglýsa afsalið. Afsalið er yfirleitt sent samdægurs til þinglýsingar ef þess er nokkur kostur. Kaupandi á rétt á afsali þegar allar greiðslur hafa verið inntar af hendi. Í kaupsamningi er kveðið á um hvenær seljandi eigi að afhenda þér eignina. Yfirleitt gerist það á þeim degi sem þú innir af hendi loka­greiðslu skv. kaupsamningi og afsal er gefið út en afhending getur verið ákveðin fyrr, til dæmis við undirritun kaupsamnings ef eignin er laus til afhendingar þá. Kaupandi og seljandi geta einnig í kaupsamningi samið um að íbúð skuli afhent á tilteknum degi á tímabilinu frá undirritun kaupsamnings til útgáfu afsals.

Heimildir fengnar á heimasíðu Tryggingamiðstöðvarinnar.