Geir Þorsteinsson, Jón Rúnar og Eggert niðurlægðir á KSÍ-þingi

Geir Þorsteinsson, Jón Rúnar og Eggert niðurlægðir á KSÍ-þingi

Guðni Bergsson var endurkjörinn formaður KSÍ með fáheyrðum yfirburðum. Hann hlaut 119 atkvæði af 145gildum atkvæðum eða 82%. Geir Þorsteinsson „heiðursformaður“ hlaut einungis 18% atkvæða.

 

Önnur eins útreið hefur ekki sést í kosningum innan íþróttahreyfingarinnar ef undan er skilið framboð Höllu Gunnarsdóttur, núverandi aðstoðarmanns Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, en hún bauð sig fram til formenns KSÍ fyrir nokkurm árum og hlaut 4 atkvæði!

 

Það er hægt að draga fleiri ályktanir af þessum úrslitum en bara þá að knattspyrnuhreyfingin á Íslandi vilji ekki frekari afskipti Geirs Þorsteinssonar af knattspyrnumálum hér á landi. Það verður að halda því til haga hverjir öttu Geir á foraðið og gerðu honum engan greiða með því. Talið er að  þar hafi farið fremstir í flokki Jón Rúnar Halldórsson formaður FH og Eggert Magnússon fyrrum formaður KSÍ. Báðum hefur sárnað að geta ekki fjarstýrt KSÍ að tjaldabaki eins og þeir gerðu í formannstíð Geirs Þorsteinssonar. Guðni Bergsson hefur ekki verið þeim leiðitamur – sem betur fer. Hann hefur hins vegar lagt höfuðáherslu á að gegna skyldum sínum fyrir alla knattspyrnuhreyfinguna á Íslandi. Fyrir það var honum þakkað með yfirburðakosningu á ársþingi KSÍ.

 

Jón Rúnar Halldórsson fór mikinn á þinginu og tók oft til máls. Hann var ávalt neikvæður í tali sínu og reyndi að grafa undan forystu KSÍ. Árangurinn kom í ljós við formannskjörið. Málflutningi Jóns Rúnars var algerlega hafnað. Hann fékk einnig skýr skilaboð frá þinginu um að halda sér á mottunni framvegis. Eggert Magnússon var einnig á bak við framboð Geirs eins og mörgum er kunnugt um. Hann ætti einnig að hafa vit á að draga rétta ályktun af niðurstöðum kosninganna. 

 

Knattspyrnuhreyfingin á Íslandi horfir nú fram á veginn og vill fá vinnufrið fyrir fólki eins og Geir Þorsteinssyni, Jóni Rúnari Halldórssyni og Eggert Magnússyni.

 

Vonandi sér Geir Þorsteinsson sóma sinn í því að skila svonefndri „heiðursformanns“ nafnbót til KSÍ. Það getur ekki verið neinn heiður fólginn í þvi að bera slíka nafnbót eftir að hafa verið hafnað með eins afgerandi hætti og hér um ræðir. Skili Geir þessari nafnbót ekki, þá verður „heiðursformannstitillinn“ ekkert annað en neyðarlegt háð.

 

Að lokum þetta:  Kæri Geir, Aldrei, aldrei, aldrei meir!

Nýjast