Gefur út bók um ris og fall WOW air – Skúli vildi ekki samstarf

Gefur út bók um ris og fall WOW air – Skúli vildi ekki samstarf

Um næstu mánaðamót kemur út bók sem fjallar um ris og fall flugfélagsins WOW air. Höfundur bókarinnar, er Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu. Bókin er með vinnutitilinn Með himinskautum, ris og fall flugfélagsins WOW air. Frá þessu er greint í Markaðnum.

Í bókinni verður farið ítarlega yfir aðdragandann að stofnun WOW air, uppgang þess og gjaldþrot. Markaðurinn greinir frá því að nýjar upplýsingar sé að finna í bókinni um gjaldþrot flugfélagsins, sem eru sagðar varpa áður óþekktu ljósi á þær fjöldamörgu tilraunir sem voru gerðar til að forða falli þess.

Skúli gaf ekki kost á samstarfi

Vinna Stefáns Einars við bókina hófst í lok mars, þegar ljóst varð að WOW air hefði hætt starfsemi og var úrskurðað gjaldþrota. Bókin verður rúmlega 300 blaðsíður að lengd og byggir á opinberum heimildum en einnig áður óbirtum skjölum. Þá ræddi Stefán Einar við tugi einstaklinga sem tengdust WOW air á einn eða annan hátt á árunum sjö sem flugfélagið starfaði.

Við ritun bókarinnar leitaðist Stefán Einar eftir samstarfi við Skúla Mogensen, stofnanda og forstjóra flugfélagsins, en hann vildi ekki gefa kost á því.

Nýjast