15 ára gamall í hjartastopp í Kvennaskólanum: „Þakklátur fyrir þann tíma sem ég hef fengið“

15 ára gamall í hjartastopp í Kvennaskólanum: „Þakklátur fyrir þann tíma sem ég hef fengið“

Þorvaldur S. Helgason
Þorvaldur S. Helgason

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason gaf á dögunum út ljóðabókina Gangverk. Bókin er einkar persónuleg og lýsir því þegar hann fór í hjartastopp aðeins 15 ára gamall. Læknablaðið greinir frá.

Í þriðju viku síns fyrsta skólaárs í Kvennaskólanum lak Þorvaldur yfir á öxl skólasystur sinnar þar sem þau biðu eftir tíma. Hún hélt að hann væri að grínast, en svo var nú aldeilis ekki. Hjarta Þorvalds hafði stoppað og var hann við dauðans dyr. Endurlífgunin tók rúman hálftíma, „... 33 mínútur og þrjár sekúndur,“ eins og hann segir sjálfur í viðtali við Læknablaðið.

Eftir endurlífgunina var Þorvaldur kældur í marga sólarhringa og haldið sofandi. Hann vaknaði með óráði. „Mig langaði að vinna með þetta og vinna úr þessari reynslu.“

Nú sér bjargráður um að halda Þorvaldi á lífi, fari svo að hjartað bregðist aftur. Hann er drifinn áfram af vélbúnaði, gangverki. „Það var ekki endanlega ljóst af hverju ég fór í hjartastopp en nú hef ég verið með bjargráð í nærri 12 ár,“ segir Þorvaldur.

Hann man ekki eftir björguninni en hefur þó góða mynd af því sem gerðist. „Ég hef fengið að lesa læknaskýrslurnar um atvikið og læknabréf. Það var sláandi en líka áhugavert sjónarhorn. Ég nýtti textann í skrifin og skrifaði ljóð upp úr þessum skýrslum.“

„Tungumálið sem læknaskýrslurnar eru skrifaðar á er mjög áhugavert. Það er sérstakt og örugglega fullkomlega eðlilegt fyrir lækna en fyrir leikmann er þetta mjög einkennilegt mál. Mikið af læknaslettum og fræðitali gáfu textanum sérstaka áferð. Stundum varð til óvænt ljóðræna í þessum bréfum, eitthvað sem örugglega átti ekki að vera skáldlegt. Ég greip á stangli setningar og orð sem voru mjög ljóðræn, sem ég stal og nýtti mér í ljóð,“ bætir Þorvaldur við.

Aðspurður um hvort þessi reynsla hafi breytt lífi sínu segir hann: „Já, auðvitað, en ég áttaði mig kannski ekki á því strax. Það var ekki fyrr en ég var kominn yfir tvítugt að ég fór að pæla í þessu. Ég áttaði mig á því að ég var búinn að vera með mikinn heilsukvíða. Ef ég hafði smá verk einhvers staðar var ég sannfærður um að ég væri kominn með krabbamein.“

Þorvaldur segist einnig hafa hugsað mikið um dauðann. „Ég var í námi í listaháskólanum, á sviðshöfundabraut, þar sem ég vann verk um hjartað og dauðann. Ég gerði sviðslistaverk sem hét Gangverk lífsins og var einhvers konar forveri þessarar bókar.“ Hann hafi farið sem nemi inn á Landspítalann með hjartalækninum sínum, Hirti Oddssyni.

„Ég fékk að fylgjast með nokkrum hjartaaðgerðum, sem var magnað. Þá fór ég að gera þessa rannsókn um hjartað, um þessar tvær hliðar þess, líffærið og það hugmyndafræðilega, sem ég nýti áfram í bókinni,“ segir hann.

Lokaverkefnið hans var um dauðann. „Ég hafði hugsað um hvað dauðinn þýddi og gerði sviðslistaverk sem fjallaði um það.“ Þátttakendur voru settir í spor þess sem væri að deyja. „Þeir fengu að einhverju leyti að upplifa það að deyja.“

Aðspurður hvort hann óttist að fá ekki að verða gamall segir Þorvaldur: „Nei, ég pæli ekki mikið í því. Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég hef og þann sem ég hef fengið. Það sem framtíðin ber í skauti sér tilheyrir framtíðinni.“

Þess má geta að Þorvaldur var gestur Sigmundar Ernis í Bókahorninu á Hringbraut, þar sem hann ræddi ljóðabók sína Gangverk. Viðtalið má finna í heild sinni hér:

Nýjast