Gamalt fólk í fátæktargildru

Brýnasta verkefnið er að bæta kjör eldri borgara, segir Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík, en Gísli mætti í Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.
 
Þar ræddi hann stöðu eldri borgara,í ljósi orða Ara Skúlasonar hagfræðings sem sagði í síðustu viku að eldri borgarar gætu orðið næsti stóri neysluhópurinn, eins og börn og unglingar voru á sínum tíma.
 
Nú er staðan, að sögn Gísla sú að tekjur fólks dragast verulega saman þegar það hættir að vinna og fer á eftirlaun. Hann sagði að nýlega hefði verið skipuð nefnd til að skoða kjör þeirra sem falla undir kjararáð. Hann sagði kjörið að gera það sama fyrir eldri borgara: \"Ég bara skora á forsætisráðherra að skipa nefnd til þess að skoða kjör eldri borgara, efna öll þau stóru orð sem komu fram í kosningabaráttunni síðast. Þetta herbergi sem við erum í núna [hljóðstofa Morgunútvarpsins] var frekar vinsælt til þess að tala og klappa eldri borgurum svolítið. Eigum við ekki að fara að efna þetta núna, eða byrja á því? Við erum tilbúin,“ sagði Gísli.
 
1.700 til 2.000 eldri borgarar bara með tekjur frá Tryggingastofnun, sagði Gísli. Það eru einstaklingar með 300 þúsund krónur á mánuði frá áramótum: \"Sem eru um 35 til 50 þúsund lægra heldur en sagt er að þurfi til að lifa af í landinu, samkvæmt öllum slíkum opinberum tölum, tek ég fram frá sama ráðuneyti og ákveður að eldri borgarar eigi að fá 300 þúsund.“
 
Gísli segir enn fremur að fólk verði að gera sér grein fyrir því að það verður talsvert fall í tekjum við að fara af launum á lífeyristekjur. Hann sagði að það væri sennilega 30 ára vinna að hækka lífeyrisgreiðslur sem hlutfall af heildarlaunum fólks á starfsaldri þess.