Gætu þurft að bíða fram til áramóta

Eftir að Boeing 737 MAX þotur voru kyrrsettar um miðjan mars í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa gerði Icelandair breytingar á flugáætlun sinni fram í miðjan september. Í síðustu viku uppgötvaðist mögulegur nýr galli í stýrikerfi flugvélanna, sem veldur Icelandair óvissu. Vonir höfðu staðið til að Boeing 737 MAX þotur flugfélagsins fengju að takast á loft að nýju með haustinu en líklegt er talið að vegna þessa mögulega galla dragist það fram til áramóta. Túristi.is greinir frá.

Í umfjöllun Túrista segir að gert sé ráð fyrir að sérfræðingar Boeing ljúki við breytingar á hugbúnaði vélanna í september. Þá munu flugmálayfirvöld í hverju landi fyrir sig fyrst geta hafið sitt vottunarferli og þar með gæti það dregist fram til áramóta að aflétta kyrrsetningu flugvélanna.

Samkvæmt núverandi sumaráætlun Icelandair var gert ráð fyrir að flugfélagið hefði níu MAX þotur til ráðstöfunar og voru fjórar þotur leigðar til að brúa bilið. Leigutími þeirra flestra rennur út í september. Þá fækkar flugferðum Icelandair, sem vegur upp á móti flugvélaskorti. Túristi segir að flugfélagið geti ósennilega fyllt sum þeirra skarða sem WOW air skildi eftir sig á markaðnum, t.d. í áætlunarferðum til sólarlanda, þar sem norska flugfélagið Norwegian ætlar sér stóra hluti.