Gæfa okkar hjóna er að vera nógu brjáluð

Prestur á að vera á pari við sóknarbörnin sín og aldrei hefja sig upp yfir þau, enda er hann fyrst og síðast starfsmaður á plani, vinnumaður í sinni sókn, segir Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðasókn í einkar tilfinnigaríku viðtali í Mannamáli þessa vikuna.

Í þættinum, sem hægt er að nálgast hér á vef stöðvarinnar, lýsir hún æsku sinni í Eyjafirði á afar myndrænan hátt, hvernig var að alast upp með þeim frú Matthildi og séra Bolla, húsmóðurinni og heimsmanninum sem var annað tveggja tignarlegur íhaldsmaður og skáldmæltur bókamaður, svo ákafur raunar hvað það síðastnefnda varðaði að eftir kaupstaðaferðirnar laumaði hann nýju bókunum bakdyramegin heima í Laufási, enda frú Matthildur löngu búin að fá nóg af öllum skræðustæðunum á heimilinu.

Það sér vel á Jónu Hrönn hvað hún á erfitt með að segja frá veikindum föður hennar sem strax á sjötugsaldri rataði inn í erfiðan ellisjúkdóminn sem að lokum hafði betur, rétt þegar Bolli stóð á sjötugu - og þegar hún lýsir því þegar pabbi hennar reis upp í rúminu undir það síðasta, ekki til að biðjast fyrir, aldrei þessu vant, heldur til að þakka, færa lífinu að lokum sjálfa þakkargjörðina, þá kemst hún við og fer að gráta - og grætur mikið.

Hún segist einmitt vera grátgjarn prestur, tilfinningaríkur, en trúin hjálpi henni aldrei meira en einmitt á erfiðustu stundunum í kirkjunni, frammi fyrir syrgjandi sal, en svo eigi hún það til að gráta ein í framsæti líkbílsins á leið yfir í kirkjugarðinn.

Hún metur það svo að hún sé óvenjulegur prestur og bindi þar bagga sína öðrum hnútum en margir kollegar hennar, kannski vegna þess að hún elski lífið svo óskaplega mikið og eigi auðvelt með að miðla lífsgleðinni, jafnvel hreinlega ástinni - og spurð af því tilefni hvernig þeim Bjarna Karlssyni, manninum hennar hafi tekist að vera í hjónabandi lengur en þau hafa búið saman, segir hún að brjálæði beggja hafi hjálpað þar til; þau hafi ekki bælt hvort annað niður heldur leyft því klikkaða að njóta sín.  

Mannamál eru frumsýnd öll fimmtudagskvöld klukkan 20:30.