Fyrsta loftslagsverkfall ungmenna á íslandi

Nokkur hundruð stúdenta söfnuðust saman á Austurvelli í hádeginu í dag í fyrsta loftslagsverkfalli ungmenna á Íslandi. Krafa þeirra er einföld; að íslensk stjórnvöld bregðist við neyðarástandi í loftslagsmálum. Stúdentarnir hyggjast mótmæla áfram í hádeginu á komandi föstudögum. RÚV.is greinir frá.

Verkfallið er að fyrirmynd bylgju loftslagsverkfalla sem hin sænska Greta Thunberg hefur komið af stað meðal ungmenna víðsvegar um heiminn. Landssamtök íslenskra stúdenta boðuðu til verkfallsins og eru það fyrst og fremst framhaldsskólanemar og háskólanemar sem standa að því.

Þó eru mótmælin opin öllum. „Við erum hér til að slást í hóp með þessari alþjóðlegu hreyfingu ungmenna sem er að krefjast aukinna aðgerða vegna loftslagsmála. Þetta er málefni sem skiptir máli fyrir alla í samfélaginu. Grunnkrafan er að fjárútlát í umhverfismál séu aukin,“ segir Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta, í samtali við RÚV. Fyrr í vikunni sagði hún í samtali við RÚV að ungmennin muni ekki láta deigan síga fyrr en stjórnvöld bregðist við.

Á vef samtakanna má lesa yfirlýsingu vegna loftslagsverkfallsins, þar sem lýst er yfir stuðningi við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030, bent á að þörf sé á að setja sér markmið um að halda hlýnun innan við 1,5 gráðu á heimsvísu og að þörf sé á að stórauka fjárframlög til loftslagsaðgerða þar sem íslensk stjórnvöld láti hið minnsta 2,5 prósent af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða.