Fundu ættingja sína í vesturheimi

Þótt 140 ár séu liðin frá því að fyrstu Íslendingarnir flúðu örbirgð á Íslandi til Vesturheims, Norður Ameríku og Kanada – eru taugarnar til Íslands enn sterkar. Ungt fólk ekki síður en eldra leita uppi ættingja sína fyrir vestan og öfugt, með mismiklum árangri eins og gerist og gengur. Það er merkilegt ferðalag að fara á slóðir Íslendinga og til þess sem kallað er Nýja Ísland, við Winnipegvatn í Manitoba, eins og ungir fjórmenningar upplifðu fyrr í sumar.

Linda Blöndal settist niður á tröppur Háskóla Íslands með þeim Gunnlaugu, Völu og Tómasi sem sögðu sér hafa verið tekið sem hálfgerðum hetjum þar ytra og sömuleiðis sum þeirra fundið ættingja sem þau vissu ekki af áður. Ein spurningin sem þau fengu frá eldri Vestur Íslendingum var hvort hér heima væri fólk reitt út í þá Íslendinga sem fóru burt vestur um haf.

Öll þrjú sögðust ekki hafa gert sér grein fyrir hversu mikil tengsl eru enn í dag á milli afkomenda íslensku landnemanna og gömlu ættjarðarinnar. Hvert sem þau komu var þeim tekið með íslensku bakkelsi og innilegaheitum eins og nánir fjölskylduvinir væru.

Talið er að alla vega um 16 þúsund manns af um 70 þúsund manna þjóð hafi farið vestur en heimildir um fjöldann eru gloppóttar á köflum. Þjóðræknisfélagið eflir tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga sem flust hafa til Kanada og Bandaríkjanna . Á fundi félagsins á sunnudag sagði ungt fólk frá ferð sinni til Vesturheims á vegum verkefnisins Snorri West. Sjá má fleira um það á vefsíðunni snorri.is