Friður á vinnumarkaði er gleðiefni en verkalýðsleiðtogar eru niðurlægðir

Nýgerðir kjarasamningar munu verða til góðs fyrir þjóðarbúið. Fyrir því eru margar ástæður.

 Krónutöluhækkun launa er hófleg og hún kemur til framkvæmda á löngum tíma. Kjarasamningar sem ná yfir þrjú ár og sjö mánuði gefa atvinnulífinu gott ráðrúm til skipulagningar og uppbyggingar. Sú ákvörðun að skikka Seðlabanka Íslands til að lækka vexti gleður bæði fólk og fyrirtæki því flestum er illa við seðlabankann og stýrivaxtaákvarðanir hans. Ákvörðun af þessu tagi er engu að síður alveg á mörkum þess að vera lögbrot. Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og enginn á að geta sagt honum fyrir verkum eins og gert er með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að vextir eigi að lækka. „Þetta er ekki í lagi“ segir Gylfi Zoega prófessor í viðtali við Bloomberg fréttaveituna. Það er trúlega réttur skilningur.

 

Ljóst er að fall WOW-air gerði gæfumuninn um að unnt væri að ná kjarasamningum án þess að til frekari aðgerða og skemmdarverka kæmi af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Þegar 2.000 manns missa vinnuna, alla vega fyrst um sinn, þá getur ekki verið mikil stemmning í þjóðfélaginu fyrir verkföllum. Verkalýðsleiðtogar gerðu sér þetta ljóst og þeir sáu um leið þann leik á borði að bjarga sér út úr því öngstræti sem þeir höfðu komið sér í með gálausum yfirlýsingum og upphrópunum. Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson hafa talað af fáheyrðu ábyrgðarleysi í allan vetur. Þau hafa hótað aðgerðum á vinnumarkaði sem hefðu það markmið að „meiða“ eins og það var orðað. Þau hafa einnig krafist launahækkanna upp á tugi prósenta. Ragnar þór svaraði því til í viðtali að kröfur VR væru þær að ná fram sömu hækkun og þingmenn og ráðherrar fengu sakmvæmt kjaradómi sem var 44.3% hækkun launa. Nú hefur verið samið um krónutöluhækkun upp á 90 þúsund krónur sem mun taka þrjú ár að ná fram! Hér er um mjög litla hækkun að ræða. Sem betur fer mætti segja því þessi niðurstaða mun leiða til betra jafnvægis í hagkerfinu. En það var ekki boðskapur Sólveigar Önnu og Ragnars Þórs í allan vetur. Nú standa þau eftir berstrípuð sem ætti að vera fólki í launþegafélögum þeirra mikið umhugsunarefni. Yfirlýsingar þeirra framan af vetri hljóma nú eins og marklaus hávaði í tómri tunnu.

 

Þá er mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin reynir að blása út þær aðgerðir sem hún lofar að koma til framkvæmda. Nefnd er talan 100 milljarðar án þess að geta þess að um er að ræða fjárhæð sem nær yfir þrjú til fjögur ár, fram undir árslok 2022 en þá verður þessi ríkisstjórn farin frá völdum fyrir mörgum árum. Skattalækkun til handa þeim verst settu nemur nú 9.000 krónum. Áður hafði stjórnin boðið skattalækkun að fjárhæð kr. 6.700 sem var vægast sagt illa tekið. Sú tillaga var hlegin út af borðinu. Nú bætast kr. 2.300 við. Aðgerðir í húsnæðismálum eru góðra gjalda verðar en þær komast ekki til framkvæmda fyrir en eftir nokkur ár. Skipulagning Keldnaholts og uppbygging þar mun taka mörg ár og mun mest ráðast af því hve skjótt Reykjavíkurborg getur brugðist við. Þá er það mjög mikið umhugsunarefni að verið sé að heimila fólki notkun á lífeyrissparnaði sínum til annara nota en að tryggja sér viðunandi eftirlaun þegar þar að kemur. Þessir peningar verða ekki notaðir tvisvar frekar en aðrir peningar. Það er eins og stjórnvöld átti sig ekki á því.

 

Loks ber að nefna fyrirhugaðar aðgerðir til að þrengja að lántakendum sem vilja nýta sér verðtryggð lán. Nú á að stytta hámarkstíma verðtryggða lána úr 40 árum í 25 ár. Það leiðir til þess að greiðslubirgði af slíkum lánum sem íbúðakaupendur taka þyngist til muna. Hverjum er það til gangs? Var virkilega verið að semja um það í almennum kjarasamningum að þrengja að þeim sem þurfa að taka verðtryggð lán til íbúðakaupa? Hvaðan í ósköpunum koma svona delluhugmyndir?

 

Þegar á allt er litið virðist að helst hafi náðst mikil samstaða um það milli verkalýðsforystunnar, SA og ríkisstjórnarinnar að sammælast um að þessir samnningar séu tímamót og snilldin ein. „Tær snilld“ eins og áður var sagt. Það stenst enga skoðun og fljótlega mun verða sýnt fram á að hér er ekki um neinn stórviðburð að ræða. Einn verkalýðsleiðtoginn komst svo að orði að þessir samningar væru meiri tímamót en þjóðarsáttarsamningarnir árið 1990. Þessi verkalýðsleiðtogi var þá trúlega enn í grunnskóla og hefur ekki haft fyrir því að kynna sér hvað gerðist þá raunverulega. Með þeim samningum var verðbólga tekin niður úr 80% í 8%. Ekkert í núverandi samkomulagi kemst nærri því afreki og öðrum afrekum sem sá samningur fól í sér.

 

En gleymum samt ekki því mikilvægasta sem er að framundan er friður á vinnumarkaði og ráðrúm til uppbyggingar næstu 3-4 árin.

 

Vonandi mun þessi niðurstaða einnig skila þeim árangri að verkalýðsleiðtogar framtíðarinnar gæti orð sinna betur en núverandi leiðtogar hafa gert svo þeir hljómi ekki aftur sem tómar tunnur.