Freysteinn er látinn: „einn minn kærasti vinur er fallinn frá“

\"\"Freysteinn Jóhannsson, fyrrverandi fréttastjóri á Morgunblaðinu, lést hinn 24. júlí síðastliðinn á Hrafnistu í Hafnarfirði, 73 ára að aldri, eftir erfið veikindi hin síðari ár. Útför Freysteins var gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gær, í kyrrþey að hans ósk. Freysteinn var fæddur í Siglufirði 25. júní 1946. Freysteinn lauk prófi frá Norska blaðamannaskólanum í Ósló 1970. Greint er frá andláti þessa merka blaðamanns í Morgunblaðinu í dag. Fjölmargir hafa minnst hann á samskiptamiðlum sem og í Morgunblaðinu. Í Morgunblaðinu segir:

„Freysteinn var blaðamaður við Morgunblaðið ár árunum 1967 til 1973 og 1977 til 2009. Hann var ritstjóri Alþýðublaðsins á árunum 1973 til 1975 og ritstjórnarfulltrúi Tímans frá 1975 til 1977. Hann var fréttastjóri á Morgunblaðinu 1981-2001.

Þá var Freysteinn blaðafulltrúi heimsmeistaraeinvígisins í skák 1972. Þá var hann höfundur bókarinnar Fischer gegn Spassky – saga heimsmeistaraeinvígisins 1972, ásamt Friðriki Ólafssyni. Framan af starfsævinni fékkst Freysteinn fyrst og fremst við fréttaskrif og fréttastjórn. Seinni starfsárin sneri hann sér í meira mæli að því að taka viðtöl við fólk og er mörg eftirminnileg viðtöl Freysteins að finna á síðum Morgunblaðsins. Freysteinn sagði m.a. í bókinni Í hörðum slag, íslenskir blaðamenn II, sem út kom 2016.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og sennilega er það ein meginástæðan fyrir því að ég fór út í blaðamennsku.“

Þá segir í Morgunblaðinu að við leiðarlok þakki blaðið Freysteini heilladrjúgt og gjöfult samstarf um áratuga skeið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Karl Blönd aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins segir um Freystein:

Freysteinn Jóhannsson var blaðamaður fram í fingurgóma. Mín fyrstu kynni af honum voru snemma á níunda áratugnum. Ég var að stíga mín fyrstu skref í blaðamennsku og hann var í öflugu liði fréttastjóra á Morgunblaðinu. Ég átti að vinna frétt upp úr fréttatilkynningu og var sendur öfugur til baka með afraksturinn með þeim orðum að ég skyldi ekki koma aftur fyrr en ég hefði fundið almennilega fyrirsögn á skrifin.

Freysteinn var mikill á velli, kraftmikill og með sterka rödd. Hann var fljótur að sjá í gegnum froðu og snakk og komast að kjarna málsins og vildi að blaðamenn hans gerðu slíkt hið sama. Hann lá ekki á skoðunum sínum og sagði bæði kost og löst. Betra uppeldi gat reynslulaus glanni í blaðamennsku ekki fengið. Morgunblaðið veður ekki inn á skítugum skónum, sagði hann einhvern tímann og þagði augnablik áður en hann bætti við:

„Við förum fyrst úr skónum og síðan förum við inn.“

Þessi orð eru í raun kjarni þeirrar blaðamennsku sem hann vildi að stunduð væri. Morgunblaðið kynni sig og færi ekki fram með yfirgangi og látum, en héldi hins vegar áfram að knýja á um svör þar til þau væru fengin. Og svörin vildi hann fá, hvort sem hann var sjálfur á höttum eftir fréttinni eða var í hlutverki fréttastjóra.

„Það er einn mikilvægasti eiginleiki blaðamanns að vera úrræðagóður og missa aldrei sjónar á fréttinni. Reyna alveg í drep,“ sagði hann í viðtalsbókinni Í hörðum slag.

Karl segir að Freysteinn hafi ekki einungis verið öflugur fréttamaður. Hann hafi verið slyngur á öllum sviðum blaðamennskunnar. Það hafi komið í ljós þegar hann lét af fréttstjórn og byrja að skrifa aftur. Karl segir:

„Þá varð helgarútgáfa blaðsins hans vettvangur og skrifaði hann mörg frábær viðtöl. Hann átti auðvelt með að nálgast viðmælendur sína og þeir voru fúsir til að opna sig fyrir honum. Freysteinn hafði snemma tileinkað sér hraðritun. Honum fannst lítið til upptökutækninnar koma og skrifaði allt hjá sér. Þegar viðtalinu var lokið varð að hafa hraðar hendur við að skrifa glósurnar upp. Sú gáfa að geta þetta er ekki öllum gefin og ráðgáta þeim, sem ekki hafa hana.“

Bætir Karl við að það hafi verið forréttindi að vinna með og kynnast Freysteini. Karl segir: „Hann kann að hafa virst hrjúfur við fyrstu viðkynningu, en undir yfirborðinu leyndist einstakt ljúfmenni. Hann kunni vel að meta góðar sögur og hafði ekki síður gaman af að segja frá. Ef sagan var sérstaklega góð kom skelmislegur kímniglampi í augun á honum og breitt bros birtist í skegginu. Freysteinn og Morgunblaðið áttu samleið í fjóra farsæla áratugi. Hann var einn af mörgum sem settu mark sitt á blaðið á þessum tíma og stuðluðu að vexti þess og viðgangi.“

\"\"

Agnes Bragadóttir blaðamaður skrifar:

„Einn minn kærasti vinur í áratugi er fallinn frá, Freysteinn Jóhannsson. Margir myndu segja að Freysteinn hafi dáið langt um aldur fram og dauði hans hafi því verið ótímabær. Ég er ekki í þeim hópi, enda veit ég að síðustu æviár vinar míns voru honum erfið og raunar mikil þrautaganga, vegna mikilla og nánast síendurtekinna heilsuáfalla. Ég trúi því að vinur minn hafi verið hvíldinni feginn.“

Kynni Agnesar og Freysteins hófust 1. apríl 1984 þegar Agnes hóf störf á Morgunblaðinu. Agnes segir:

„Okkar kynni hófust 1. apríl 1984, daginn sem ég hóf störf á Morgunblaðinu. Styrmir Gunnarsson ritstjóri fylgdi mér inn á fréttafund, sem Freysteinn, vakthafandi fréttastjóri, stýrði. Styrmir kynnti mig og sagði að ég væri nýr liðsauki á innlendu fréttadeildinni. Blaðamenn Morgunblaðsins ættu þó að þekkja upphafsstafi mína, AB, sem ósjaldan hefðu birst undir forsíðufréttum Tímans. Þar með hvarf Styrmir a braut, en fréttastjórinn Freysteinn bauð mig hjartanlega velkomna til starfa.

Þá segir Agnes:

„Einn blaðamaður sem þá starfaði á Mogga hafði ekki sömu sýn á liðsaukann og ritstjórinn og fréttastjórinn, því hann sagði einfaldlega:

„Ég ætla rétt að vona að þetta hafi verið aprílgabb ritstjórans!“

Þessi orð blaðamannsins vöktu hlátur einhverra blaðamannanna, en Freysteinn þaggaði snöfurmannlega niður í þeim. Enginn leit á mig sem aprílgabb eftir þennan fund. Þetta var upphafið að samvinnu og vináttu okkar Freysteins. Hann var augljóslega alltaf í hlutverki mentorsins og ég fróðleiksfúsi nemandinn hans.“

Agnes heldur áfram: „Freysteinn fékk að kynnast ómældum erfiðleikum og sorg þegar Siddý heitin, fyrri eiginkona hans, greindist með MNDsjúkdóminn, sem eftir áralanga baráttu þeirra beggja dró hana til dauða árið 1993. Því var það okkur vinum hans og félögum á Mogga mikið gleðiefni þegar hann fann hamingjuna á ný, með henni elsku Gústu sinni, og gamalkunni glettnisglampinn varð aftur reglulegur fylgifiskur augna hans.

Þau voru ekki bara einstaklega fallega ástfangin, heldur svo miklir félagar og vinir, að ég hugsaði oft þvílík gæfa það væri að þau skyldu finna hvort annað.

Gústa hefur undanfarin ár verið klettur Freysteins í hafinu, enda dó hann í örmum hennar og ég veit að hvergi annars staðar hefur hann viljað fá hinstu hvíldina.“

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins skrifar:

Á síðustu áratugum 20. aldarinnar varð til á ritstjórn Morgunblaðsins mjög öflugur og samstæður hópur ungs fólks, sem smátt og smátt varð burðarásinn í útgáfu blaðsins. Eitt sinn komum við Haraldur Sveinsson, framkvæmdastjóri blaðsins og einn af helztu eigendum Árvakurs hf. á þeim tíma, fram saman í útvarpsþætti, sem sennilega hefur tengzt einhverju afmæli blaðsins. Haraldur var spurður hver væri lykillinn að velgengni Morgunblaðsins á þeim tíma og svar hans var:

„Að ná í gott fólk.“

Freysteinn Jóhannsson, sem nú er látinn, var einn af því góða fólki sem á þeim tíma kom við sögu Morgunblaðsins. [...] Hann var fjölhæfur starfsmaður og jafnvígur á mörgum sviðum blaðamennsku. [...] Einn af beztu kostum Freysteins Jóhannssonar sem samstarfsmanns á Morgunblaði þeirra ára var að hann sagði ritstjórum blaðsins alltaf hug sinn allan, og var reyndar ekki einn um það. Það opna samfélag sem varð til á Morgunblaðinu náði inn á síður blaðsins. Samstarfskonu minni á Morgunblaðinu til margra ára, Jónu Ágústu, eiginkonu Freysteins, votta ég samúð mína.

Svanhildur Konráðsdóttir segir á Facebbok:

„Freysteinn var frábær - kynntist honum þegar ég var að vinna fyrir Menningarborgina en Mogginn var samstarfsaðili og Freysteinn minn maður. Blessuð sé minning hans.“

Björgvin Halldórsson skrifar:

„Blessuð sé minning hans. Kynntist honum þegar hann tók viðtal við mig. Góður maður“

Þá segir Illugi Jökulsson rithöfundur:

„Freysteini kynntist ég þegar mamma hóf störf á Mogganum um 1968. Hann var einn af ungu og hressu strákunum sem urðu máttarstólpar fréttadeildarinnar og gerðu Morgunblaðið að því sem það var þegar best lét.

Freysteinn var alltaf vinsamlegur og kátur þegar ég kom að hitta mömmu á Mogganum og sá ungu strákanna sem henni líkaði einna best við, ásamt Birni Vigni. Og það fór ekki milli að sem fagmenn í blaðamennsku voru þeir báðir afburðamenn.

Báðir voru þeir reknir þegar sægreifarnir tóku blaðið yfir og gerðu Davíð Oddsson að ritstjóra. Hvernig stendur annars á því að enginn hefur skrifað almennilega sögu Moggans?“