Freyja reið þeim magnúsi og bryndísi: „megi þau eiga sitt hatur og taka ábyrgð á því“ – birtir skjáskotin

Baráttukonan Freyja Haraldsdóttir hefur lengi óskað eftir að fá að gerast fósturmóðir. Freyja hefur látið á sér kveða í ýmsum baráttumálum fyrir minnihlutahópa og hefur fólk verið duglegt að segja skoðun sína á henni. Margsinnis hefur fólk farið yfir strikið og haft sterka skoðun á hvað Freyja getur og hvað Freyja getur ekki. Freyja segist í mörg ár hafa setið undir hatri og nú vill hún skila skömminni og birtir skjáskot frá fólki sem telur að hún eigi ekki að fá að ala upp barn þrátt fyrir að fá alla þá aðstoð sem þarf til að sinna móðurhlutverkinu.

Freyja fær ýmsa aðstoð og síðan standa foreldrar hennar þétt við bakið á henni. Viðtal sem Sindri Sindrason tók fyrr á árinu við foreldra hennar vakti athygli en foreldrar hennar styðja hana heilshugar í þeirri ákvörðun að gerast fósturforeldri. Auður Árnadóttir móðir hennar sagði í því viðtali:

„Ég hef alið hana upp í gegnum lífið að hún getur gert allt. Hún er búin að sýna það og sanna. Hún er búin að upplifa svo ótrúlega mikið og hefur svo mikið að gefa. Þó svo að hún kannski geti ekki tekið upp barn og faðmað það. Við gátum ekki tekið hana upp og faðmað hana og þurftum að finna aðrar leiðir. [...] Ég verð stundum svolítið kjaftstopp þegar það er sagt svona við mig. Fólk veit ekki hvað það er að tala um og það þekkir hana ekki. Ég þekki dóttir mína, ég er búin að ala hana upp og hún á alveg eins að geta verið móðir. Það særir mig mjög mikið þegar fólk er að tala um þetta.“

Freyja segir á samskiptamiðlum í dag að nú sé nóg komið. Hún segir:

„Í mörg ár hef ég setið undir hatri frá fólki fyrir það að telja mig eiga rétt á eðlilegri málsmeðferð og reyndar telja mig verða hæfa fósturmóður. Ég held það sé orðið tímabært að skila eitthvað af þeirri skömm með því að draga þetta mæta fólk fram í dagsljósið og velta því dálítið fyrir sér. Dreifa því jafnvel - og láta það taka ábyrgð á orðum sínum.“

Þá birtir Freyja tvö skjáskot, annað frá Magnúsi Árnasyni og annað frá Bryndísi Símonardóttur.

\"\"

\"\"

Feyja svarar þessu og segir:

„Magnúsi finnst ég fáránleg og það að ég elski og annist börn óeftirsóknarvert fyrir þau öll sem eitt. Hver vill svosem vera elskaður af fatlaðri konu? Bryndís tekur afstöðu með börnum og segir nei. Hún telur mig skaðlega og aðstoðarkonur mínar ógn við tengslamyndun og stöðugleika við börn.“

Freyja segir að engin ástæða sé að taka slíkum athugasemdum þegjandi og hljóðalaust. Þetta séu viðhorf eins og séu á Barnaverndarstofu og málsástæður þeirra.

„Að sitja undir réttarhöldum um líkama sinn og líf er ekki auðvelt. En það er kökusneið miðað við það að búa í samfélagi sem er morandi í athugasemdum sem þessum um líkama þinn og líf. Megi þau eiga sitt hatur og taka ábyrgð á því. Orðstír og heiður þeirra er ekki mín ábyrgð.“